Stólarnir mæta Haukum í kvöld
Körfuknattleikslið Tindastóls mætir Haukum í Iceland Express deild karla, á Ásvöllum í Hafnarfirði, í kvöld kl. 19:15. Liðin eru jöfn í deildinni með tvö stig hvor, í 10.-11. sæti og því um mjög mikilvægan leik að ræða. Tindastólsmenn eru í uppsveiflu um þessar mundir eftir slæma byrjun á mótinu og hafa nú sigrað tvo af síðustu þremur leikjum.
Lið Hauka tapaði fyrstu fjórum leikjum en sigraði loks fyrsta leikinn sinn á móti Fjölni í byrjun nóvember. Líkt og hjá Stólunum urðu þjálfaraskipti hjá Haukum á dögunum en Pétur Rúðrik Guðmundsson tók við af Pétri Ingvarssyni. Samkvæmt heimasíðu Tindastóls ætti Pétur Guðmundsson að vera Tindastólsstuðningsmönnum vel kunnugur en hann lék með Stólunum á tímabilinu 1995-1996. Þar segir að Pétur hafi verið „fljótur að skapa sér nafn sem baráttuhundur sem var tilbúinn að selja ömmu sína fyrir frákast.“
Í liði Hauka eru tveir erlendir leikmenn sem hefur verið keyrt mikið á, þeir eru Jovanni Shuler og Christopher Smith en þeir hafa jafnan verið með 20 stig hvorir í leik. Aðrir leikmenn sem hafa staðið sig vel og ber að vara sig á eru þeir Sævar Haraldsson og Örn Sigurðsson.
Brottfluttir Skagfirðingar, eða þeir sem eru á ferðinni á höfuðborgarsvæðinu, eru hvattir til að láta sjá sig á Ásvöllum í kvöld og hvetji liðið almennilega til dáða.