Stytta Jóns Ósmanns skemmd eftir málningarsprey

Hún var óskemmtileg aðkoman við útsýnisstað Jóns Ósmanns við Vesturós Héraðsvatna á dögunum en búið var að skemma styttuna af Ósmann með málningarspreyi, sem erfitt getur reynst að laga án mikils tilkostnaðar.

Að sögn Árna Ragnarssonar, eins þeirra sem stóð að uppsetningu styttunnar, er um mikla skemmd að ræða þó málningin sé ekki mikil þar sem erfitt getur reynst að hreinsa hana án frekari skemmda. Telur hann að styttan geti skemmst við þrif þar sem hún er húðuð með sérstöku lakki og ljóst að mikill kostnaður gæti fylgt þeirri lagfæringu.

Þó málningin sé ekki mikil getur reynst erfitt að hreinsa hana án frekari skemmda.Árni segist fara reglulega að styttunni til að tína upp rusl og laga til eftir gesti sem þar stansa en mikið er um sígarettustubba og stundum engu líkara en fólk tæmi öskubakka bíla sinna á staðnum. Einnig er mikið af öðru rusli sem fólk skilur eftir einkum utan af ýmsum neysluvörum.

 

Árni vill hvetja fólk til að hafa auga með styttunni og svæðinu í kring: „Þetta er styttan okkar allra og stolt. Ég myndi vilja að fólk yrði samtaka um að passa upp á hana og umhverfið í kring,“ segir Árni.

Hann segist ekki vita hvað verði gert þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður eigi styttuna og er framhaldið í þeirra höndum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir