Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur hafa gengið til formlegra sameiningarviðræðna

Horft yfir Eylendið af Glóðafeyki. Mynd: PF.
Horft yfir Eylendið af Glóðafeyki. Mynd: PF.

Sameiningarviðræður eru hafnar milli Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar, með það fyrir augum að íbúar kjósi um tillöguna í lok janúar eða byrjun febrúar. Samstarfsnefnd sveitarfélaganna er skipuð tíu fulltrúum, fimm frá hvoru sveitarfélagi og er vinnuheiti verkefnisins, Skagfirðingar. Finna má upplýsingar um verkefnið og framgang þess á vefsíðunni skagfirdingar.is sem nýbúið er að opna.

Þar geta íbúar sent spurningar og ábendingar, auk þess að leita upplýsinga um framgang verkefnisins en upplýsingar á vefsíðunni verða uppfærðar eftir því sem verkefninu vindur fram.

Samstarfsnefnd hefur haldið fjóra fundi og fengið ráðgjafafyrirtækið RR ráðgjöf til aðstoðar við verkefnið, en RR ráðgjöf hefur sérhæft sig í verkefnisstjórn og ráðgjöf við sameiningarverkefni. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur samþykkt að veita verkefninu framlag sem stendur undir kostnaði við verkefnið og verða íbúar sveitarfélaganna því ekki fyrir beinum kostnaði. Samstarfsnefndin fundar vikulega þessi misserin og er góður gangur í verkefninu.

Á skagfirðingar.is kemur fram að samstarfsnefndin hafi fengið skólastjórnendur í Varmahlíð og sérfræðinga af Fjölskyldusviði til tveggja funda til að ræða stöðu og framtíðarsýn í félags- og fræðsluþjónustu. Auk þess er umræða um fjármál sveitarfélaganna og mögulegar breytingar á stjórnskipulagi komin vel á veg. Niðurstöður greininga verða birtar á skagfirdingar.is þegar þær liggja fyrir.

Fulltrúar í samstarfsnefnd eru:

Akrahreppur

  1. Drífa Árnadóttir
  2. Eyþór Einarsson
  3. Hrefna Jóhannesdóttir
  4. Ragnhildur Jónsdóttir
  5. Sigríður Sigurðardóttir

 

Sveitarfélagið Skagafjörður

  1. Álfhildur Leifsdóttir
  2. Gísli Sigurðsson
  3. Ingibjörg Huld Þórðardóttir
  4. Jóhanna Ey Harðardóttir
  5. Sigfús Ingi Sigfússon

 

 

Fleiri fréttir