Sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar sendir samúðarkveðjur til borgarstjóra Kongsberg
Fólki var brugðið í gærkvöldi þegar spurnir bárust af skelfilegum atburði í Kongsberg í Noregi, vinabæ Sveitarfélagsins Skagafjarðar, þar sem maður á fertugsaldri varð fimm manns að bana og særði tvo til viðbótar. Hann var handtekinn og hefur við yfirheyrslur játað sök að sögn lögreglunnar.
Þeir sem létu lífið í árásinni voru fjórar konur og einn karl og voru öll á milli fimmtugs og sjötugs. Fólkið skaut hann með boga og örvum. Maðurinn hafði áður komist í kast við lögin en hann er talinn hafa snúist til öfgahyggju. Lögreglan rannsakar málið sem hryðjuverk.
Á Facebook-síðu Sveitarfélagsins Skagafjarðar segir að Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri, hafi í morgun „...komið á framfæri til borgarstjóra Kongsberg í Noregi, vinabæjar Skagafjarðar, innilegum samúðarkveðjum fyrir hönd íbúa Skagafjarðar til fjölskyldu og aðstandenda þeirra sem létust af völdum ódæðisverks sem framið var í borginni í gærkvöldi.“
Heimildir: Svf. Skagafjörður og mbl.is