Tanja M. Ísfjörð tilnefnd til verðlauna JCI sem framúrskarandi ungur Íslendingur
Skagfirðingurinn Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir er meðal níu annarra sem tilnefnd hafa verið sem Framúrskarandi ungir Íslendingar en verðlaunin eru veitt árlega af JCI á Íslandi. Tanja hlaut viðurkenningu fyrir framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda en hún hefur verið ötul baráttukona gegn kynbundnu ofbeldi, bætingum í réttarkerfinu og í þágu þolenda.
JCI stendur fyrir Junior Chamber International og eru samtök fyrir ungt fólk á aldrinum 18 til 40 ára sem hefur áhuga og metnað til þess að efla hæfileika sína og hafa jákvæð áhrif. Þetta er í 20. skipti sem samtökin veita verðlaunin um Framúrskarandi ungir Íslendingar og eru fyrst og fremst hvatningarverðlaun til ungs fólks sem tekst á við krefjandi og athyglisverð verkefni, hvatning og viðurkenning fyrir ungt fólk sem kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni.
Á heimasíðu verðlaunanna, framurskarandi.is, kemur fram að þetta árið hafi borist hátt í þrjúhundruð tilnefningar frá almenningi en auglýst er eftir tilnefningum á hverju ári og getur hver sem er tilnefnt framúrskarandi ungan Íslending. Sérstök dómnefnd fer svo yfir tilnefningar og velur úr tíu framúrskarandi einstaklinga sem fá viðurkenningu og þar af einn verðlaunahafa. Verðlaunin verða veitt miðvikudaginn 24. nóvember.
Eftirfarandi hljóta viðurkenningu í ár:
Björt Sigfinnsdóttir :: Störf /afrek á sviði menningar
Chanel Björk Sturludóttir :: Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Eyþór Máni Steinarsson :: Störf á sviði viðskipta, frumkvöðla og/eða hagfræði
Hanna Ragnarsdóttir : Störf á sviði tækni og vísinda
Heiðrún Birna Rúnarsdóttir :: Störf á sviði siðferðis og/eða umhverfismála
Isabel Alejandra Diaz :: Leiðtogar/afrek á sviði menntamála
Sindri Geir Óskarsson :: Störf á sviði mannúðar eða sjálfboðaliðamála
Tanja M. Ísfjörð Magnúsdóttir :: Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Þorbjörg Þorvaldsdóttir :: Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Þórunn Eva G Pálsdóttir :: Framlag til barna, heimsfriðar og/eða mannréttinda
Af þessum hópi verður einn einstaklingur valinn sem Framúrskarandi Ungur Íslendingur árið 2021.
Í umsögn um Tönju segir:
Tanja hefur í sex ár verið ötul baráttukona gegn kynbundnu ofbeldi, bætingum í réttarkerfinu og í þágu þolenda. Allt er þetta launalaust sjálfboðastarf. Hún er með bachelorgráðu í sálfræði og skrifaði ba ritgerð þar sem hún innihaldsgreindi #metoo frásögur kvenna og gerði vandamálinu góð skil. Hún hefur margsinnis bent á óþægilegar staðreyndir, ruggað bátnum og orðið í kjölfarið fyrir miklu aðkasti, en stendur keik þó á móti blási.
Hún hefur sýnt mikið hugrekki og opnað augu margra hvernig staðan er, í von um að stuðla að auknum upplýsingum og forvörnum gegn ofbeldi og áreitni ásamt því að hafa áhrif á bætta réttarstöðu þolenda og umræðu og viðhorf í þjóðfélaginu.
Tanja hefur verið ein af þeim fremstu í flokki aðgerðasinnahópsins Öfgar sem stofnaður var í vor. Henni hefur verið lýst sem fyrirmynd margra í femínisma og aktívisma í dag sem og bjart ljós fyrir komandi kynslóðir og betra samfélagi fyrir öll kyn og þolendur kynferðisofbeldis.
Sjá nánar HÉR