Það er bara þannig dagur í Skagafirði í dag

Svona dagur. Þetta er reyndar ekki staðan núna, þessi mynd er frá því um páskahelgina. MYND: ÓAB
Svona dagur. Þetta er reyndar ekki staðan núna, þessi mynd er frá því um páskahelgina. MYND: ÓAB

Það er standandi partý í Skagafirði í dag; söngur, sport og gleði. Undanfarin Sæluvikunnar býður oft upp á mesta fjörið og það lýtur flest út fyrir að svo verði núna. Þó margt sé í boði í dag þá bíða snnilega flestir spenntir eftir körfuboltaleiknum í kvöld en Tindastóll og Njarðvík eiga við í fjórða leiknum í einvígi liðanna í undanúrslitum Subway-deildarinnar. Ekkert er mikilvægara en körfubolti á þessum árstíma – það er bara þannig í Skagafirði.

Leikurinn hefst kl. 19:15 en partýtjaldið góða opnar í skjóli fyrir norðangolunni sunnan Síkis klukkan hálf fjögur. Þar verður hægt að finna allar helstu nauðsynjar stuðningsmanna Tindastóls eins og til dæmis hamborgara og kúrekahatta. DJ Ari Eyland ætlar að poppa allt upp og síðan mætir Dillsveit Dósa (með hörðum edlum) á svæðið – þeir félagar ætla að krydda aðeins stemninguna með lifandi tónum. Síkið opnar síðan 17:45 og þá er vissara að vera kominn í röðina.

Að leik loknum verður boðið upp á rútuferð í Reiðhöllina Svaðastaði þar sem tekið verður til kostanna með sýningunni Tekið til kostanna. Það verður allt á útopnu í dag og í kvöld og ekki nokkrum manni ætti að leiðast í Skagafirði.

Þá er rétt að geta þess að karlalið Tindastóls í tuðrusparki mætir liði Magna frá Grenivík á gervigrasinu og hófst leikurinn kl. 13. Að þeim leik loknum, eða kl. 15, mæta stelpurnar okkar frábæru í sameinuðu liði Tindastóls, Hvatar, Kormáks og Fram (Skagaströnd) sameinuðu liði Vals og KH.

Myndlistarsýning Varmahlíðarskóla er opin í Miðgarði einhverntímann í dag og myndlistarsýningin Litbrigði samfélagsins opnaði í dag kl. 13 í Gúttó á Króknum.

Ekki er annað að sjá en allir veitingastaðir séu með opið í dag á Króknum, Það er þegar opið á Kaffi Krók og Hard Wok Café og Sauðá opnar kl. 14. Alls konar í boði í tilefni dagsins. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir