„Það er vont að vera í óvissu“ segir Unnur Valborg

Unnur Valborg, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra. MYND: HÚNAÞING.IS
Unnur Valborg, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra. MYND: HÚNAÞING.IS

Það var þungt högg fyrir samfélagið í Húnaþingi vestra þegar riða kom upp á Bergsstöðum í Miðfirði á vordögum og fella þurfti allt fé á bænum. Ekki leið á löngu þar til riða uppgötvaðist á bænum Syðri-Urriðá sem einnig er í Miðfjarðarhólfi og þar þurfti einnig að fella allt fé. Í kjölfarið hafa vaknað miklar umræður um hvað er til ráða gegn riðunni en bændur hafa fengið sig fullsadda á þeim reglum sem fylgt er í dag þar sem allur fjárstofninn er skorinn.

Opinn upplýsingafundur var haldinn á Hótel Laugarbakka þann 18. apríl síðastliðinn sem var vel sóttur. Feykir hafði samband við Unni Valborgu Hilmarsdóttur, sveitarstjóra í Húnaþingi vestra, og spurði út í fundinn og stöðuna í Húnaþingi.

Hvernig finnst þér samfélagið í Húnaþingi vestra hafa tekist á við það högg sem fylgir riðunni og meðfylgjandi niðurskurði, hefur fólk staðið þétt við bakið á þeim sem lentu í þessum hremmingum? „Eitt af því sem einkennir samfélagið í Húnaþingi vestra er að við stöndum saman þegar á bjátar. Á því hefur engin breyting orðið. Hugur okkar allra er hjá bændum á Bergsstöðum og Urriðaá og ég leyfi mér að fullyrða að allir hafi staðið þétt við bakið á þeim í þessum hörmungum sem á þeim hafa dunið.“

Hafa einhverjar vísbendingar verið um að riðan leynist víðar á svæðinu, er fólk uggandi yfir því? „Miðfjarðarhólf hefur fram til þessa verið hreint hólf og því hefur verið meiri samgangur á milli bæja en í riðuhólfum. Eðlilega er fólk því uggandi yfir því hvort smit leynist víðar. Eins og staðan er í dag eru engar vísbendingar um að svo sé og við vonum að sjálfsögðu allt það besta. Það er hins vegar vont að vera í óvissu og ég hugsa mikið til þeirra bænda sem í þeirri stöðu eru.“

Það reyndist ekki þrautalaust að finna förgunarleið fyrir féð á Urriðaá – hver var ástæðan fyrir því? „Förgun þess fjár sem fellt var í seinni niðurskurðinum reyndist vandamál þar sem eina brennslustöðin á landinu var í viðhalds-stoppi þegar slátrun fór fram. Brennsla er eini leyfilegi farvegurinn fyrir úrgang af þessum toga sem var því miður ekki fær í þessu tilfelli. Það var enginn ánægður með að þetta þyrfti að urða en ég get þó kinnroðalaust staðhæft að allar aðrar leiðir voru fullreyndar. Við lögðum á okkur gríðarlega vinnu til að þaulreyna allar aðrar lausnir. Þegar það var orðið ljóst gekk ekki þrautalaust að finna urðunarstað. Það gekk á endanum og ég verð þeim sem tóku þátt í að vinna að því að leysa það ævinlega þakklát.“

Stjórnvöld verða að gera betur í úrgangsmálum

Hvernig fannst þér takast til með umræðufundinn sem haldinn var Hótel Laugarbakka. Var það góður fundur og gaf hann fyrirheit um betri tíma og aðrar lausnir? „Ég var ánægð með fundinn á Laugarbakka. Ekki síst fyrir hversu margir mættu til fundar sem sýnir þá samstöðu og stuðning sem við höfum fundið í þessu öllu saman. Gestir komu margir hverjir langt að til að sitja fund og sýna stuðning. Það kom svo sem ekki margt nýtt fram á fundinum en gott að hittast, ræða málin og finna þennan mikla stuðning. Spurningar bárust eðli málsins samkvæmt flestar til MAST sem er sú stofnun sem hefur verið í forgrunni í aðgerðum öllum og fannst mér umræður málefnalegar og góðar. Karólína í Hvammshlíð fór vel yfir þá vinnu sem farið hefur fram fyrir hennar tilstilli varðandi rannsóknir á verndandi arfgerðum gegn riðu. Sú vinna vekur upp vonir um betri tíma og aðrar lausnir. Í ljósi þess var það sérstakt ánægjuefni þegar matvælaráðherra lagði fram tillögu til ríkisstjórnarinnar fyrir örfáum dögum um breytta nálgun við útrýmingu á riðu. Hún felst í því að markvisst verði unnið að hraðari ræktun riðuþolins sauðfjárstofns á ræktunarsvæðum sem eru skilgreind sem áhættusvæði. Einnig er gert ráð fyrir því í tillögunni að MAST verði heimilt að undanskilja fé með verndandi arfgerð frá niðurskurði. Þessi leið er sú sem kallað hefur verið eftir að farin verði í þessum tilfellum og því mikill léttir að við séum að færast í þá átt.“

Unnur Valborg segir fólk bera þá von í brjósti að aðgerðirnar í Miðfirði verði síðasta skiptið sem ráðist verður í algeran niðurskurð þegar upp kemur riða. „Til að svo megi verða þarf sú vinna sem tillaga matvælaráðherra gengur út frá að ganga hratt og vel og haldast í hendur við nauðsynlegar laga- og reglugerðabreytingar. Einnig sýnir þessi staða sem upp kom svo ekki er um villst að stjórnvöld verða að gera betur í úrgangsmálum. Það er ótækt að taka upp reglur sem ekki er nokkur leið að uppfylla eins og reglur um förgun dýraleifa reyndust í þessu tilfelli. Ég vona að ekkert sveitarfélag muni lenda í þeirri stöðu sem við vorum í og mun leggja mitt af mörkum til að það verði ekki,“ segir Unnur Valborg að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir