Þrír vöruflokkar úr minkaolíu
Þrír vöruflokkar af smyrslinu Gandi, sem unnið er úr minkafitu, hafa nú litið dagsins ljós hjá fyrirtækinu Urðarketti í Skagafirði. Um er að ræða Sárabót, græðandi smyrsli sem er ætlað fólki, Sárasmyrsl sem er græðandi smyrsli ætlað ferfætlingum og Leðurfeiti.
Urðarköttur er fjölskyldufyrirtæki staðsett á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Uppistaðan í framleiðslulínunni Gandur er minkafita sem fellur til við verkun skinnanna. Urðarköttur er meðal sýnenda á atvinnu- og menningarlífssýningunni Lífsins gæði og gleði sem fram fer á Sauðárkróki nú um helgina.
Að sögn Ásdísar Sigurjónsdóttur hafa hin græðandi áhrif minkafitunnar verið þekkt lengi, en meðan menn voru að handflá minkinn tóku þeir eftir hvað hendurnar á þeim voru alltaf mjúkar og öll sáru greru sérlega fljótt.
Upphaflega hafi yngsti sonur hennar stungið upp á að framleitt yrði græðandi smyrsl til að bera á múkk og ýmis sár hjá dýrum en síðan hafi fólk farið að nota það líka og því hafi það raun verið eftirspurnin sem réði því að farið var að framleiða smyrslin fyrir fólk líka.
Ásdís segir framleiðsluna vera á frumstigi og þrátt fyrir að markaðssetning sé raunar ekki hafin ennþá sé salan og eftirspurn þó nokkur.
