Tillaga að deiliskipulagi fyrir hesthúsahverfið á Króknum

Sveitarfélagið Skagafjarðar hefur auglýst tillögu að deiliskipulagi fyrir Flæðigerði á Sauðárkróki, hesthúsahverfið, en markmiðið með tillögunni er meðal annars að svara aukinni eftirspurn eftir hesthúsalóðum og skapa góða aðstöðu fyrir fjölbreyttar íþróttir.
Skipulagssvæðið er 33,4 hektarar og á uppdrætti eru sýndar 22 hesthúsalóðir við Tjarnargerði, 26 hesthúsalóðir við Flæðigerði, ein lóð fyrir dýraspítala, ein fyrir dælustöð hitaveitu, tværlóðir fyrir reiðhallir, ein fyrir samkomuhús og ein fyrir reiðgerði. Þá eru þrír byggingareitir utan lóða fyrir dómhús.
Fram kemur í tilkynningu á Skagafjörður.is frá í gær að skipulagstillagan muni liggja frammi til kynningar á skrifstofu skipulagsfulltrúa, Skagfirðingabraut 17-21, Sauðárkróki á skrifstofutíma frá 10-12 og 12:30-15.
„Tillagan er auglýst frá 22. september til og með 5. nóvember 2021. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir og eða koma á framfæri ábendingum við skipulagstillöguna. Athugasemdir skulu vera skriflegar og má afhenda í afgreiðslu ráðhúss við Skagfirðingabraut 21 á Sauðárkróki eða senda á póstfangið, Sveitarfélagið Skagafjörður, Skagfirðingabraut 21, 550 Sauðárkróki,“ segir í tilkynningunni.
Þá er einnig hægt að senda ábendingar eða athugasemdir á netfangið skipulagsfulltrui@skagafjordur.is