Tindastólsdagurinn og stuðningsmannakvöld í vikunni

Flottasta liðið. Var einhver búinn að gleyma því að Stólarnir urðu Íslandsmeistarar í vor? MYND: ÓAB
Flottasta liðið. Var einhver búinn að gleyma því að Stólarnir urðu Íslandsmeistarar í vor? MYND: ÓAB

Það styttist í að körfuboltavertíðin hrökkvi í gang á ný fyrir alvöru og pottþétt margur stuðningsmaðurinn sem bíður óþreyjufullur eftir því að gamanið hefjist á ný. Nú býður körfuknattleiksdeild Tindastóls öllum áhugasömum að mæta í Síkið á fimmtudaginn og halda upp á Tindastólsdaginn með stuðningsfólki, leikmönnum, þjálfurum, iðkendum og stjórnarfólki.

Dagskráin hefst kl. 17:30 og stendur til 19:00 en þá verða leikmenn kvenna- og karlaliðsins kynntir. Briddað verður upp á ýmsu öðru skemmtilegu. Þannig verður hægt að taka myndir af sér með leikmönnum og að sjálfsögðu Íslandsmeistarabikarnum. Það verður þrautabraut, stinger og alls konar gaman.

„Hægt verður að máta og panta búninga. Þeir iðkendur sem ætla að fá búninga eru beðnir um að koma og máta og ganga frá pöntun. Árskortsalan hefst á fimmtudaginn í Síkinu. Að sjálfsögðu verður Tindastólsbúðin opin. Það er ósk okkar að sem flestir sjái sér fært um að mæta og byrja veturinn með okkur í Síkinu,“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu kkd. Tindastóls.

Stuðningsmannakvöld á laugardag

Laugardaginn 23. september verður stuðningsmannakvöld Tindastóls á Kaffi Krók og byrjar það kl. 21:00 og stendur langt fram eftir nóttu. Þjálfarar karla- og kvennaliðanna, Pavel og Helgi Freyr, mæta og fara yfir plan vetrarins og taka örugglega á móti misgóðum ráðum frá stuðningsfólki.

Það verður uppboð á ýmsum hlutum og að sjálfsögðu verður pubquiz svo eitthvað sé talið upp. Markmið kvöldsins er að hittast og stilla saman strengi og jú, hafa gaman! Svo verður víst nóg af tilboðum á barnum.

„Hlökkum til að sjá ykkur öll!“ segir loks í tilkynningunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir