Ungur Skagfirðingur bar sigur úr bítum í evrópskri ljósmyndakeppni

Íris Lilja Jóhannsdóttir vann í vikunni verðlaun fyrir ljósmynd sína „Sæt tortíming“ í ljósmyndakeppni á vegum Umhverfisstofnunar Evrópu. Íris Lilja er frá Hólum í Hjaltadal en stundar nám í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Í frétt á heimasíðu Landverndar kemur fram að Íris hafi staðið uppi sem sigurvegari Ungs umhverfisfréttafólks á Íslandi á framhaldsskólastigi árið 2021 og komst verkefnið hennar einnig í undanúrslit í alþjóðlegri keppni YRE (young reporters for the environment).
Eins og áður segir er Íris frá Hólum í Hjaltadal, dóttir Jóhanns Bjarnasonar, skólastjóra GAV, og Laufeyjar Guðmundsdóttur kennara. Í samtali við Landvernd segist hún ennþá vera að meðtaka fréttirnar um sigurinn, en er himinánægð með verðlaunin. „Myndin fjallar um það hvernig mennirnir eru að sleikja upp auðlindir jarðarinnar og fegurð hennar. Ég bjó til húmoríska viðlíkingu þar sem manneskja er að sleikja ískúlu sem er jörðin“.
Dómnefnd á vegum Umhverfisstofnunar Evrópu þótti yfirlýsing Írisar djörf og hugvekjandi um neyðarástandið í heiminum.
Sjá nánar HÉR