Vala María bakar og fagnar fólki í Áshúsi

Vala María í Áshúsi. MYND AF FB BSK
Vala María í Áshúsi. MYND AF FB BSK

Það er komið sumar þó hitastigin séu nú varla til skiptanna en farið er að örla á auknum túrisma. Sumarið kallar á meiri umsýslu á veitingastöðum og kaffihúsum og í Skagafirði er að sjálfsögðu opið á þeim stöðum sem jafnan eru opnir og nokkrir hafa bæst við með hækkandi sól. Þannig er Vala María Kristjánsdóttir nýr verkefnastjóri matarupplifunar í Áshúsi Byggðasafnsins í Glaumbæ en kaffihúsið opnar 20. maí.

Vala er viðskiptafræðingur að mennt en hefur alltaf haft mikinn áhuga á bakstri og matseld og að taka vel á móti fólki.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu starfi og hlakka til þess að bera fram kræsingar í anda þess sem tíðkaðist hér áður fyrr. Það voru ófá sumrin sem ég varði hjá ömmu og afa á Sauðárkróki og í sveitinni hjá ömmu og afa á Róðhóli og þar var oft á borðum alls konar kökur og bakkelsi sem verður minn innblástur í veitingaúrvalið í Áshúsi.“ hefur Facebook-síða BSK eftir Völu Maríu sem segist hlakka til að taka vel á móti gestum Áshúss.

Fyrir þá sem eru uppteknir af ættfræði má geta þess að Vala María er dóttir Kristjáns B. Jónssonar frá Róðhóli og Rögnu Hrundar Hjartardóttur af Hólmagrund.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir