Vel heppnaður opinn dagur Skagfirðingasveitar

Það var líf og fjör á opnum degi Skagfirðingasveitar. Myndir af FB-síðu sveitarinnar.
Það var líf og fjör á opnum degi Skagfirðingasveitar. Myndir af FB-síðu sveitarinnar.

Laugardaginn 28. maí hélt Björgunarsveitin Skagfirðingasveit á Sauðárkróki opinn dag fyrir bæjarbúa. Ýmislegt var um að vera í húsinu og gafst gestum meðal annars kostur á að prófa klifurvegginn, spreyta sig í kassaklifri, fara rúnt með snjóbílnum og skoða tæki sveitarinnar.

Rúmlega sjötíu manns heimsóttu sveitina þennan dag, gæddu sér á pylsum og nutu veðurblíðunnar. Vinsælast allra tækja og búnaðar var snjóbíllinn þar sem flestir, ef ekki allir, fóru að minnsta kosti einn rúnt um bæinn í honum. Nokkrir gestanna sýndu leikni sína í kassaklifrinu og ef undirrituð man rétt átti Jóhanna Ey metið í þeim og raðaði 18 kössum saman, en strákarnir í unglingadeildinni voru ekki langt undan henni.

Það fundu allir eitthvað við sitt hæfi, jafnt ungir sem aldnir. Ein amman lærði til dæmis á hjartastuðtæki undir leiðsögn eins félaga okkar, einhverjir skoðuð fjarskiptabúnaðinn af miklum áhuga, aðrir fóru í allt og þau allra yngstu sátu úti og krítuðu á stéttina. Þá var þessi dagur frábært hópefli fyrir félaga sveitarinnar sem komu saman á föstudeginum og undirbjuggu daginn; þrifu tæki, hús og búnað, og áttu góða stund saman.

Fyrir hönd Skagfirðingasveitar vil ég þakka öllum gestum okkar kærlega fyrir komuna og vonast til að sjá enn fleiri næst þegar við bjóðum heim.

Myndir frá deginum má nálgast HÉR

Hafdís Einarsdóttir, formaður

Fleiri fréttir