Vel heppnaður starfsdagur skagfirsku skólanna

Frá AppHraðstefnumóti á starsdegi skólanna. MYNDIR: ÓAB
Frá AppHraðstefnumóti á starsdegi skólanna. MYNDIR: ÓAB

Svokallaður UT starfsdagur var haldinn í í Árskóla á Sauðárkróki í gær en um er að ræða endurmenntunardag fyrir alla starfsmenn grunnskólanna í Skagafirði. Starfsdagurinn var undanfari UTÍS ráðstefnunnar sem Ingvi Hrannar Ómarsson hefur staðið fyrir síðastliðin fimm ár á Sauðárkróki en hana sækja um og yfir 150 kennarar víðs vegar að af landinu. UTÍS ráðstefnan hófst kl. 9 í morgun og stendur fram á laugardagskvöld.

Á vef Skagafjarðar segir: „Vegna [UTÍS] ráðstefnunnar koma hingað til lands ýmsir erlendir sérfræðingar í tækni- og skólamálum og stýra vinnustofum fyrir starfsfólk skólanna á endurmenntunardegi  þeirra ... Einnig er um að ræða svokallaðar menntabúðir þar sem starfsfólk grunnskólanna og  framhaldsskólans  [FNV] deilir af reynslu áhugaverðum og fjölbreyttum verkefnum sem unnið er með í skólunum. Dagurinn endar á spennandi örkynningum um ýmiss öpp og verkfæri sem nýtt eru í skólastarfi.“

Starfsdagurinn var settu kl. 9 í gærmorgun en síðan tóku við vinnustofur þar sem erlendir fyrirlesarar fóru yfir það nýjasta í tækni- og skólamálum og gat fólk valið sér fyrirlestra eftir áhugasviði. Að hádegisverði loknum voru menntabúðir þar sem kynnt og ræddu voru ýmis menntatengd málefni, s.s. er skriftarkennsla tímaeyðsla, gagnrýnin hugsun, átak í hraðlestri, sagt frá heimsókn til Ítalíu, FNV kynnti Erasmus verkefni og nýjan áfanga um sjálfbærni o.s.frv. 

Samkvæmt upplýsingum Feykis voru um 100 starfsmenn skólanna í Skagafirði mættir í Árskóla og var ekki annað að sjá en áhuginn og gleðin væri enn alls ráðandi þegar ljósmyndari Feykis kíkti í heimsókn þegar síðasti dagskrárliðurinn var í gangi, AppHraðstefnumót, þar sem tíu öpp voru kynnt fyrir starfsfólkinu á tíu borðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir