Verum stór

Eins og mörgum er kunnugt fór Íslandsmótið í hestaíþróttum fram á Hólum í Hjaltadal í sumar. Svæðið á Hólum er hið allra glæsilegasta en undanfarin ár hefur verið sífelld upppbygging á því. Nú síðast voru byggðir glæsilegir vellir á svæðinu og áhorfendamanir í aðdraganda Landsmóts hestamanna sem fram fór á Hólum sumarið 2016. Fyrir voru glæsileg mannvirki sem nýtast vel, bæði til mótahalds og kennslu við hestadeild Háskólans á Hólum, hesthúsapláss fyrir fleiri hundruð hross og þrjár reiðhallir. Það er mat sumra að hvergi sé betra að halda hestamót en á Hólum, því þar er jú, allt til alls á einum og sama blettinum.

 Íslandsmótið í ár á Hólum tókst afar vel að mati þeirra sem sóttu mótið og héldu það. Lagt var upp úr því að nýta mannauðinn sem til er í að halda mótið, enda margir í héraðinu orðnir vel sjóaðir í því að halda stór hestamót. Í raun má segja að á svæðinu hefur orðið til gífurleg þekking í að halda svona stórmót, og ekki bara hestamót, því að mörg stór og vel heppnuð mót í öðrum íþróttum hafa verið haldin hér á svæðinu. Má þar nefna önnur stór og fjölmenn mót eins og Unglingalandsmót, Landsmót UMFÍ, Króksmót og Steinullarmót á Sauðárkróki, Landsmót 50+ á Hvammstanga og Smábæjarleika á Blönduósi. 

Ég tel að svona fjölmenn mót og fyrirferðarmikil séu gífurlega mikilvæg fyrir minni samfélög eins og okkar. Ég segi minni samfélög, en auðvitað meina ég það ekkert. Við eigum ekki að horfa á okkur sem lítil, við erum stór, alla vega ekki minni en aðrir. Norðurland vestra hefur alla burði til að halda mót og viðburði af sömu stærðargráðu og önnur byggðarlög, og með sama standard, takk. 

Fyrirtæki á svæðinu njóta góðs af fjölmenni, íbúum ætti að líða vel með það að fólk sé til í að heimsækja svæðið og ég tala nú ekki um öll mannvirkin sem rísa á svæðinu í kjölfar stórra móta sem nýtast síðan samfélaginu áfram.

Verum stór.

/SMH

Leiðarinn birtist 27. tölublaði Feykis árið 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir