Vormenn Íslands

Pavel og Guðmundur í slæmum Kappsmálum. Þarna sést Pavel gera upp viðureignina fyrir lokaátökin. Þátturinn var stórskemmtilegur þó úrslitin hafi ekki verið stuðningsfólki Stólanna að skapi. SKJÁSKOT AF RÚV
Pavel og Guðmundur í slæmum Kappsmálum. Þarna sést Pavel gera upp viðureignina fyrir lokaátökin. Þátturinn var stórskemmtilegur þó úrslitin hafi ekki verið stuðningsfólki Stólanna að skapi. SKJÁSKOT AF RÚV

Því hefur stundum verið haldið fram að vorið sé tími Pavels Ermolinski. Gærkvöldið var í það minnsta ekki að afsanna þá kenningu því ekki var nóg með að kappinn hlyti talsvert slæma útreið í Kappsmálum Sjónvarpsins, þá urðu meistarar Tindastóls, sem Pavel stýrir jú, að sætta sig við tap gegn liði Hattar frá Egilsstöðum í undanúrslitum Álborg SK88 mótsins sem fram fer í Borgarnesi.

Í frétt á Körfunni.is segir: „Í fyrri leik kvöldsins lagði Höttur lið Íslandsmeistara Tindastóls, 82-85. Stigahæstur fyrir Hött í leiknum var Deontaye Buskey með 15 stig, Matej Karlovic bætti við 14 stigum. Fyrir Stólana var það Arnar Björnsson sem var stigahæstur með 30 stig og honum næstur var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 17 stig.“

Í síðari leiknum marði Stjarnan lið Vesturbæinga, 84-81, og nú í hádeginu hófst leikurinn um þriðja sætið á mótinu en þar mætast gömlu erkifjendurnir KR og Tindastóll. Að honum loknum bítast síðan Stjarnan og Höttur um Álaborg SK88 bikarinn glæsilega.

Feykir leyfir sér í lokin að hvísla því að áhugasömum að Pavel, fjölfaldur Íslandsmeistari í körfu, og Guðmundur Stephensen, borðtennisrisi Íslands, töpuðu Kappsmálum 45-84 gegn íþróttafréttakonum RÚV, Helgu Margréti og Eddu Sif, sem voru reyndar á eldi. Í körfuboltatölum minnir þetta á fyrsta leik Tindastóls í Njarðvík í úrslitakeppninni í ár þar sem heimamenn rétt skriðu yfir 50 stigin. Leikurinn endaði 52-85 ef minnið svíkur ekki. En þá var líka vor.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir