Á móti straumnum, mynd Óskars Páls Sveinssonar, frumsýnd á laugardaginn

Myndin er táknræn og segir samtímis frá ferðinni í kynleiðréttingarferlinu og svo frá ferðinni á róðrinum á kajak þar sem glímt er við náttúruna um hvor hefur betur, segir í kynningu myndarinnar.
Myndin er táknræn og segir samtímis frá ferðinni í kynleiðréttingarferlinu og svo frá ferðinni á róðrinum á kajak þar sem glímt er við náttúruna um hvor hefur betur, segir í kynningu myndarinnar.

RIFF kvikmyndahátíð í Reykjavík var sett þann 24. september sl. og stendur fram á sunnudag, 4. október, en boðið er upp á úrval alþjóðlegra kvikmynda, viðburða og pallborðsumræðna í Bíó Paradís, Norræna húsinu og á netinu. Auk hefðbundinna bíósýninga í Bíó Paradís er boðið upp á yfir 100 myndir frá öllum heimshornum í gegnum netið. Á móti straumnum, mynd Óskars Páls Sveinssonar um transkonuna Veigu Grétarsdóttur sem siglir á kayak í kringum Ísland, verður frumsýnd nk. laugardag kl. 18.

Veiga segir á Facebook-síðu sinni að hún hafi verið stödd í bókabúðinni á Ísafirði fyrir tveimur árum þegar hún fékk símtal frá Óskari Páli sem hafði áhuga á að gera heimildarmynd um ferð hennar í kringum landið og hana sjálfa. „Þetta er búið að vera skemmtilegt ferðalag, lærdómsríkt en jafnframt erfitt að rifja upp allt sem ég fór í gegnum í mínu kynleiðréttingarferli fyrir framan myndavélina. Nú tveimur árum seinna er afraksturinn tilbúinn og verður myndin frumsýnd 3 okt. á Riff kvikmyndahátíðinni,“ skrifar hún.

Í kynningu á myndinni segir á heimasíðu RIFF að myndin sé táknræn og segir samtímis frá ferðinni í kynleiðréttingarferlinu og svo frá ferðinni á róðrinum á kajak þar sem glímt er við náttúruna um hvor hefur betur. Myndin lýsir innri baráttu Veigu um líf eða dauða hvort sem er í lífinu sjálfu eða ein úti á kajak.

Óskar Páll Sveinsson, kvikmyndagerðarmaður.

Feykir hafði samband við Skagfirðinginn listræna, Óskar Pál Sveinsson og spurði frétta af verkefninu en Á móti straumnum er fyrsta heimildamynd hans sem leikstjóri. Hann hefur þó unnið við nokkrar aðrar myndir bæði sem kvikmyndatökumaður og meðframleiðandi.

Hvernig kom það til að þú fórst í þetta verkefni?
Ég frétti af þessari kayak ferð hennar Veigu fyrir tveimur árum síðan og hafði þá áður heyrt hennar persónulegu sögu. Ég sá strax fyrir mér að þarna mætti flétta tvær magnaðar átakasögur í eina áhugaverða mynd.

„Samhliða tekst hún á við sjálfa sig í kynleiðréttingarferlinu og gefur myndin innsýn í innri baráttu Veigu um líf eða dauða hvort sem er í lífinu sjálfu eða ein úti á kajak,“ segir í kynningu myndarinnar. Hvernig var að vera hluti af því þegar einstaklingur tekst á við slíkt persónulegt verkefni ásamt hinu? 
Það var vissulega krefjandi á köflum, það gat tekið á fyrir Veigu að rifja upp erfiða hluti úr fortíðinni og það þurfti að nálgast þetta af nærgætni og virðingu. Það voru ekki síður miklar áskoranir að mynda kayak hringferðina en á sama tíma heilmikið ævintýri. Þetta endaði í þriggja mánaða útilegu hjá mér í fyrra.

Hvað var erfiðast við myndina eða verkefnið?
Ég held að það hafi verið að eiga við hið síbreytilega veður okkar sem gerir allar tökur utandyra, og hvað þá úti á sjó, ansi hressandi á köflum.

Hvað er á döfinni hjá þér?
Ég er að vinna að nýrri mynd með Ljósmyndaranum Ragnari Axelssyni eða Rax. Ég er búinn að vera að ferðast með honum um Grænland og fylgja honum út á ísinn þar sem hann er að mynda efni í sína nýjustu bók. Bókin og myndin fjalla um eina af aðal hetjum norðurslóða, grænlenska sleðahundinn.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir