Bindin fram í febrúar, landsátak um hálsbindi er hafið á ný

Á morgun 1. febrúar hefst landsátakið Bindin fram í febrúar í ellefta sinn á Íslandi. Átakið er hvatning til allra um að nota bindi í febrúarmánuði. Markmið átaksins er að auka fjölbreytta bindanotkun á Íslandi í leik og starfi og að vekja athygli á því að bindi er hægt að nota bæði við hversdagsleg og hátíðleg tækifæri óháð aldri, kyni og starfi.

Átakið stendur yfir allan febrúarmánuð og er hægt að fylgjast með átakinu á Facebook síðu þess,  facebook.com/bindinfram og á Instagram. Þar er hægt að sjá fjölbreytileika binda og tengdra mála, taka þátt í umræðu um bindi og senda inn bindamyndir.

Allir sem bindi geta valdið eru eru hvattir til að taka þátt með því að deila myndum og færslum á samfélagsmiðlum með millumerkinu #bindinfram.

Hálsbindi eru skemmtileg viðbót við fataflóruna, henta raunverulega við allar aðstæður, hvort sem er í vinnu, skóla, félags- eða einkalífi. Þau eru eins og við sjálf af öllum stærðum og gerðum, litum og munstrum og hægt að nota á marga mismunandi vegu. Hálsbindi eru góð leið til þess að breyta klæðaburði, tjá tilfinningar, lífsskoðanir, áhugamál, starfsvettvang, kynferði og framtíðarþrár. Þau geta meira segja verið „casual“ þrátt fyrir hefðbundna bindisfordóma. Hálsbindi má nota hvenær og hvar sem er sem og hvernig sem er, það má máta sig við allt í dag. Fögnum fjölbindileikanum!

Taktu þátt með okkur í landsátakinu með því að taka bindin fram úr skúffunni og setja þau upp í febrúar.

/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir