Eins og veltandi steinn

Um helgina verður heljarmikil tónlistarhátíð á Skagaströnd tileinkuð tónlist hins goðsagnakennda tónlistarmanns Bob Dylan. Dagskrá hefst í félagsheimilinu Fellsborg með tónleikum og sýningu og er aðgangur ókeypis. Í lok fjölbreyttra dagskráliða verður Dylanmessa í Hólaneskirkju þar sem Dylanlög með trúarlegri tengingu verða flutt af tónlistarfólki úr hljómsveitum hátíðarinnar með aðstoð organista Hólaneskirkju.

Eins og veltandi steinn í tónlistinni

Í tilkynningu frá hátíðarhöldum segir að tímarnir líða og breytast, og það sama eigi við um Bob Dylan:
„Hann varð áttræður á síðasta ári og er enn að forma og endurskapa ljóðlist sína og tónlist. „Bob Dylan er einn af þeim sem rís upp á milli árþúsunda. Hann líkamnar allt það fegursta í okkar hjarta, óviðjafnanlegur í heimi tónlistar og kyndilberi allra sem á eftir koma.“ (Leonard Cohen í þýðingu Íslensku Dylan mafíunnar.)

Í tilefni af þessum tímamótum efnir áhugafólk um Dylan og tónlist hans til tónlistarhátíðar á Skagaströnd dagana 13. til 14. ágúst. Nokkrar áhugamannahljómsveitir troða upp í félagsheimilinu Fellsborg, meðal annars hin rómaða hljómsveit Slow train. Dylanmafían stendur fyrir sýningu á ýmsum áhugaverðum munum tengdum Dylan og Hennig Emil Magnússon ennig fjalla um Dylan, líf hans, ljóðagerð og tónlistarsköpun.
Tónlistarhátíðinni lýkur á sunnudeginum með Dylan messu í Hólaneskirkju þar sem sr. Bryndís Valbjarnardóttir annast messuhaldið.

Nánar um Dylan

Dylan er án ef einn af afkastamestu og mikilsvirtustu tónlistarmönnum samtímans. Honum hefur verið lýst sem meistara ljóðsins og einum áhrifamesta listamanni 20. aldar. Hann fékk Pulitzer verðlaunin fyrir framlag til tónlistar og bandarískrar menningar og ljóðræns styrkleika í kveðskap sínum. Barack Obama forseti sagði um Dylan ári 2012 að það væri enginn risi stærri en Dylan í sögu bandarískrar tónlistarhefðar. Rolling Stone tímaritið setti Dylan árið 2015 í fyrsta sæti yfir 100 mestu lagahöfunda allra tíma, en áður hafði tímaritið valið lagið hans Like a Rolling Stone sem besta lag allra tíma.

Hann hefur einnig unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og viðurkenninga, meðal annars Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2016. Viðurkenninguna fékk hann fyrir að hafa skapað nýja ljóðræna tjáningu innan bandarískrar tónlistarhefðar. Hann var þar með fyrsti tónlistarmaðurinn til að hljóta verðlaunin.

„Undir áhrifum frá Bob Dylan og fleiri slíkum breyttist textagerð báðum megin Atlantsála á árunum 1965 og 1966. Dylan söng sjálfur ábúðarmikil ljóð og stundum ádeilusöngva.“ (Gestur Guðmundsson í Rokksögu Íslands.)

Tónlistarferillinn spannar um 60 ár, útgáfu á yfir 600 lögum og sölu á um 120 milljónum hljómplatna um víða veröld. Fyrsta platan Bob Dylan kom út árið 1962 og sú nýjasta Rough and Rowdy Ways árið 2020. Dylan hefur haldið ótal tónleika um heim allan og hann hefur komið tvisvar til Íslands, árið 1990 og 2008. Fyrri tónleikarnir Dylans voru lokaviðburður Listahátíðar það árið.

Og nú er Dylan komin á níræðisaldur en tónlist hans er síung og verður eins og góð vísa aldrei of oft kveðin! Þess vegna er komin tími til að velta fyrir sér lögum hans og ljóðum á tónlistahátíðinni Eins og veltandi steinn – á Skagaströnd, við Spákonufellið fagra sem sveipað er kyngimagnaðri dulúð (Duluth) – líkt og Dylan sjálfur.“

Dagskrá

Laugardagur 13. ágúst;
Tónlistarhátíð í félagsheimilinu Fellsborg

14.00-17.30
Tónleikar og sýning (Aðgangur ókeypis)
Hljómsveitirnar Sverrisson Hotel, Zimmerman, Dylansérsveitin, Dulúð og Projekt,

17.30-18.30
Dylan barspurningar (Aðgangur ókeypis)
Dylanmafían stýrir leiknum.

20.00-23.30
Tónleikar og fróðleikur (Aðgangur 2.500 kr. á tix.is og við innganginn)
Hljómsveitirnar Sverrisson Hotel, Dylanbræður, Funi – Chris Forster og Bára Grímsdóttir, Slow train og Himnahliðið bjóða upp á tónlistarveislu Dylanlaga.
Á milli tónlistaratriða fræðir Henning Emil gesti um Bob Dylan

Á veitingahúsunum Harbour og Hólanesi:
23.30 – 02.00
Dylantónlist – barinn opinn

Sunnudagur 14. ágúst;
11.00 – 12.30
Dylanmessa í Hólaneskirkju
Dylanlög með trúarlegri tengingu flutt af tónlistarfólki úr hljómsveitum hátíðarinnar með aðstoð organista Hólaneskirkju.

Tengd frétt: Um 80 Dylanlög verða flutt á Dylanhátíð á Skagaströnd

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir