Um 80 Dylanlög verða flutt á Dylanhátíð á Skagaströnd

Hljómsveitin Sverrisson Hotel að lokinn æfingu í gærkvöldi. Frá vinstri: Hermann, Einar Sigurmundsson, Ingvar Sverrisson, Ársæll Másson, Frímann Ari Ferdinandsson, Ólafur Haukur Matthíasson og Hrafnkell Proppé. Ólafur Haukur var, að sögn Hemma, gestur á æfingu í gær og í gæðaeftirliti en hann er í forsvari fyrir Dylanmafíuna. „Bjó ungur maður í Flatatungu og hefur sterkar taugar til Skagafjarðar,“ bætir Hemmi við. MYND AÐSEND
Hljómsveitin Sverrisson Hotel að lokinn æfingu í gærkvöldi. Frá vinstri: Hermann, Einar Sigurmundsson, Ingvar Sverrisson, Ársæll Másson, Frímann Ari Ferdinandsson, Ólafur Haukur Matthíasson og Hrafnkell Proppé. Ólafur Haukur var, að sögn Hemma, gestur á æfingu í gær og í gæðaeftirliti en hann er í forsvari fyrir Dylanmafíuna. „Bjó ungur maður í Flatatungu og hefur sterkar taugar til Skagafjarðar,“ bætir Hemmi við. MYND AÐSEND

Dagana 13.-14. ágúst verður tónlistarhátíðin Eins og veltandi steinn haldin á Skagaströnd en hátíðin er tileinkuð tónlist Bob Dylan. Til stóð að halda hátíðina í fyrra en þá greip Covid-faraldurinn inn í og lífinu var slegið á frest. Nú verður gerð önnur tilraun til að heiðra þennan magnaða tónlistarsnilling. Einn af forsprökkum hátíðarinnar er Hermann Sæmundsson og Feykir hafði samband við hann og forvitnaðist örlítið um Dylan hátíðina á Skagaströnd.

Hermann er Króksari, og já Fljótamaður, menntaður stjórnmálafræðingur og starfar nú sem skrifstofustjóri á skrifstofu stefnumála í forsætisráðuneytinu. Hann býr í Bryggjuhverfinu í Reykjavík, fílar Bob Dylan og mun að sjálfsögðu troða upp á Skagaströnd með sínu bandi. „Ég er meðlimur í Sverrisson Hotel og við stöndum fyrir hátíðinni og hefjum leikinn kl. 14:00 laugardaginn 13. ágúst. Forever Young er fyrsta lagið sem verður spilað á hátíðinni – sem er viðeigandi fyrir okkur síungu rokkarana í Sverrisson,“ segir Hermann.

Hvers vegna Dylan-hátíð á Skagaströnd? „Við félagarnir í hljómsveitinni vorum að leita að góðum stað fjarri höfuðborginni til að halda tónlistarhátíð. Þegar við komumst að því að Dylan væri áttræður á síðasta ári var einboðið að gera eitthvað í kringum það, enda meistari og af nógu að taka í lagavali. Skagaströnd varð fyrir valinu en þar er góð tónlistarmenning og skemmtilegt félagsheimili. Svo spillti ekki fyrir að vinur okkar Magnús Jónsson, fv. sveitarstjóri, er á staðnum og hefur reynst betur en enginn í að undirbúa hátíðina með okkur.“

Hvenær féllst þú fyrir tónlist Dylans? „Það var í árdaga á Skagfirðingabrautinni. Haffi Sæm [bróðir Hemma] átti Freewheelin’ Bob Dylan og þar var Blowin’ in the Wind og ég féll fyrir laginu og ýmsum öðrum á plötunni, kannski á sjöunda eða áttunda ári þá. Á efri hæðinni var Geirmundur á fóninum og það var í uppáhaldi líka, þannig að þeir félagarnair Dylan og Geimundur mótuðu smekkinn – og báðir eru enn að. Blowin’ in the Wind var síðan fyrsta lagið sem ég tók í hljómsveit með félaga Atla Hjartars og Smára Har frænda – en ferill þeirrar sveitar fór ekki á spjöld sögunnar einhverra hluta vegna.“

Hvað er það sem heillar mest; lögin eða textarnir og er eitthvað eitt lag sem er þitt Dylan-lag? „Það er í raun allt; textarnir fyrst, lögin næst og flutningur svo. Fjöbreytileikinn er líka ótrúlegur. Kappinn hefur sent frá sér eitthvað nærri 600 lög, 40 hljómplötur, þannig að það er af nógu að taka – og hann er enn að, tónleikaferðir í Evrópu í haust.“

Þegar Hemmi er spurður hvort það sé eitthvað eitt lag sem sé hans Dylan-lag lendir hann í veseni. „Slow Train er í uppáhaldi, I and I, I Want You, Jokerman… ég verð að hætta einhversstaðar,“ segir hann.

Hefurðu farið á tónleika með Bob Dylan? „Nei, bara með Geirmundi frænda mínum. En ég held að það styttist í það.“

Fyrir hverju ert þú spenntastur á hátíðinni og hvers mega gestir vænta? „Þarna kemur margt áhugafólk um tónlist Dylan saman, m,a. hin svokallaða Dylanmafía sem er hin íslenska akademía um Dylantónlist. Hljómsveitin Slow Train kemur fram og er hún sennilega ein þekktasta Dylanhljómsveit landsins. Það verða leikin um 80 Dylanlög í lifandi flutningi á Skagastönd þessa helgi, m.a. í Hólaneskirkju í messu hjá sr. Bryndísi Valbjarnardóttur. Þannig að þessi hátíð gæti verið einstakur gullmoli. Ég hugsa að tilraun Báru Grímsdóttur, kvæðakonu, til að svara þeirri spurningu hvernig ljóð Dylans hefðu hljómað ef hann hefði fæðst sem húnvetnskur kvæðamaður sé einstök og hafi ekki farið fram áður. Færri komast að en vilja þannig að það um að gera að leggja línur fyrir heimsókn á Skagaströnd sem fyrst – Don’t think twice it’s allright,“ segir Hemmi að lokum.

- - - - -
Nánari upplýsingar um hátíðina >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir