Háklassa vitleysa með útþvældum frösum og bröndurum :: Viðtal við höfunda Villimanna og villtra meyja

Margrét Berglind Einarsdóttir og Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir höfundar gleðileiksins Þytur í laufi: Villimenn og villtar meyjar sem frumsýndur verður um helgina. Aðsendar myndir.
Margrét Berglind Einarsdóttir og Jóhanna Sveinbjörg Traustadóttir höfundar gleðileiksins Þytur í laufi: Villimenn og villtar meyjar sem frumsýndur verður um helgina. Aðsendar myndir.

Um helgina fer fram gleðigjörningur mikill í Höfðaborg á Hofsósi þegar hugverk þeirra Jóhönnu Sveinbjargar Traustadóttur og Margrétar Berglindar Einarsdóttur, Þytur í laufi: Villimenn og villtar meyjar, verður frumsýnt. Feykir forvitnaðist um þær stöllur og leikverkið sem klárlega á eftir að kitla hláturtaugar sýningargesta.

Til að lesendur gætu glöggvað sig betur á höfundunum voru þær til að byrja með beðnar um að gera grein fyrir sér en þær töldu ekki frá svo miklu að segja, sennilega yrði það efni í sjálfshjálparbók fyrir aðþrengdar húsmæður. En byrjum á Margréti sem alltaf er kölluð Berglind. Hún og er uppalin austan Vatna og norðan við Hofsá, það sem í daglegu tali Hofsósinga er kallað „utan við á“. Eftir sæmilega farsæla grunnskólagöngu lá leiðin til ýmissa átta; Sauðárkróks, Bandaríkjanna og Selfoss, þar sem ýmsar starfsgreinar voru prófaðar. Flökkulífinu lauk svo með því að flytja aftur til Hofsóss fyrir um tíu árum síðan þar sem hún býr í dag ásamt eiginmanni og börnum. Berglind er viðskiptafræðingur og rekur bókhaldsstofu á Hofsósi.

Jóhanna er fædd og uppalin á Höfðaströndinni en eftir grunnskóla leitaði hugurinn á Suðurland þar sem hún ílengdist í dágóðan tíma áður en hún flutti aftur heim. Býr hún á Hofsósi með eiginmanni, börnum og þrátt fyrir ungan aldur á hún eitt barnabarn. Jóhanna er leik- og grunnskólakennari og með alls konar annað í farteskinu en starfar nú sem leikskólastjóri í Tröllaborg á Hofsósi og á Hólum í Hjaltadal.

Jón og Kristján á æfingu, líklega að
túlka villimenn frekar en villtar meyjar.

Hvað getið þið sagt mér um þetta leikrit; Þytur í laufi: Villimenn og villtar meyjar?
„Já, hvað er hægt að segja? Þetta er ekki hefðbundið leikrit. Verkið byggist upp á nokkrum leikþáttum sem við tengjum svo saman með þekktum dægurlögum - flest á íslensku. Sviðsmyndin er frumskógur og eðli málsins samkvæmt býr Tarzan í frumskóginum. Við þekkjum Tarzan úr myndasögum og bíómyndum en tökum aðeins annað sjónarhorn á líf hans heldur en hefur verið gert hingað til. Tarzan býr auðvitað með henni Jane sinni en það eru ýmsar aðrar verur sem búa í skóginum og Tarzan þarf að kljást við. Við viljum ekkert gefa of mikið upp um innihaldið en þetta er háklassa vitleysa með útþvældum frösum og bröndurum. Við lofum ykkur hlátri og engu öðru,“ segir Jóhanna.

Berglind tekur undir og segir leikarana þaulvana og mikil hæfileikabúnt sem kunna að bregða á leik svo tekið sé eftir. „Leikhópinn skipa lipurtáin Ingibjörg Sólveig Halldórsdóttir, Sigmundur Jóhannesson, Sæunn Hrönn Jóhannesdóttir, Jón Sævar Sigurðsson, Kristján Jónsson og Bjarnveig Rós Bjarnadóttir. Tónlistarstjórinn okkar, Einar Þorvaldsson, heldur utan um tónstiga, hljómsveitarfólk og söngvara. Hljómsveitina skipa Einar Þorvaldsson á gítar, Stefán R. Gíslason á píanó, Kristján Reynir Kristjánsson á trommur og Steinar Gunnarsson á bassa. Aðalsöngvarar sýningarinnar eru söngfuglarnir Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og Ívar Helgason.

Þuríður Helga vinnur við sviðsmynd en
til að smíða skóg þarf að fella skóg.

Það er auðvitað heilmikið mál að setja upp leiksýningu og við höfum fengið úrvalsfólk til liðs við okkur í búningagerð, leikmyndagerð, förðun og allt hitt sem þarf að gera. Ása Pálsdóttir dregur fram innri fegurð leikara með förðunargræjum sem við kunnum hvorugar að nefna. Þuríður Helga Jónasdóttir ræktaði fyrir okkur skóginn og alla leikmynd eins og henni er einni lagið. Ástríður Einarsdóttir mældi innan- og utanmál allra leikara og sneið og saumaði búningana á þá. Ekki má gleyma að nefna Eirík okkar Arnarson sem lýsir upp tilveruna á sviðinu, Rakel Hinriksdóttir sá um að koma okkur á framfæri með skemmtilegri auglýsingu og Fúsi Ben sér um hljóð. Fólkið á bak við tjöldin, í miðasölu og við barinn eru Ingvar Guðmundsson, Auður Jóhannesdóttir, Guðrún Halldóra Þorvaldsdóttir, Sigurlaug Guðmundsdóttir og Bjargey Einarsdóttir. Eins og alvöru sviðslistakonur verðum við að þakka fjölskyldum okkar fyrir endalausa þolinmæði á meðan á þessu stendur - takk Maggi minn og takk Ingvar minn,“ ítrekar Berglind.

 

Hvaðan kemur hugmyndin?
„Almáttugurinn minn.. manstu það Berglind?“
„Guð minn góður! Tja…þegar stórt er spurt. Ætli hún hafi ekki oltið upp á yfirborðið þegar við vorum að kasta á milli okkar hugmyndum um hvað við ættum að taka næst fyrir þegar sýningum á Pungunum lauk,“ svarar Berglind og á þar við leikverkið Pungar og pelastikk sem sett var á svið í Miðgarði haustið 2017 og svo aftur í Höfðaborg áður en vetri lauk og hlaut fádæma viðtökur.
„Jú ætli við höfum ekki hugsað með okkur að síðast vorum við með sjómannaþema og vildum næst taka fyrir eitthvað uppi á landi og varð skógarlífið fyrir valinu.“

Þegar höfundarnir eru spurðir út í það hvernig skrifin fari fram eða handritið byggt upp segja þær að byrjað sé á góðum hlátrasköllum, kjánalegu látbragði yfir einföldum bröndurum og orðatiltækjum. „Síðan veltum við upp hvort hægt væri að búa til eitthvað úr þessu og hvort við myndum fá leikara til að leika efnið. Stundum höfum við þurft að strika út heilu samtölin og senurnar þar sem við sjáum ekki að nokkur heilvita manneskja myndi hafa sig út í þessa vitleysu. En við reynum að finna einhvern rauðan þráð til að vinna með og byggja utan á en stundum týnist þráðurinn eða hann verður ansi ógreinilegur og þá er um að gera að skoða og meta hvaða leið við viljum fara með leikverkið,“ segir Berglind.

Jóhanna og Berglind við uppsetningu
Pumgar og pelastikk. Mynd: FE.

Hvernig er með leikstjórn, eruð þið sjálfar í því?
„Jú, við sjáum sjálfar um leikstjórn á verkinu því það er hluti af sköpunarferlinu. Svo er ekki hægt að leggja það á nokkurn mann að reyna koma þessu hugðarefni frá sér. Við erum sjálfar að basla við að koma þessu frá okkur til leikaranna á sviði. Stundum vill það gerast að leikarar hrista bara hausinn og velta fyrir sér hvað í ósköpunum okkur gekk til þegar þetta var skrifað,“ svarar Jóhanna, en hvernig gengur það? „Tja… hvernig gengur að leikstýra.., ætli það þurfi ekki bara að spyrja leikarana að því. Það væri best. Við erum ekki dómbærar á það sjálfar,“ segir hún.

Háklassa tónlistarfólk tekur þátt í sýningunni og segja þær vinkonur að í rauninni hafi það ekki verið mikið mál að fá það til samstarfs. „Flestum höfum við unnið með áður svo það virðist ekki hafa skemmt fyrir okkur en hinir…ja ætli þeir séu ekki bara að æfa sig í að fara út fyrir þægindarammann. Leikæfingar hafa gengið nokkuð vel. Þetta er svona örferli, við æfum bara í tvær vikur áður en við sýnum. Svo getum við bara vonað að tónlistaræfingarnar gangi vel en þar sem við höfum hvorki tóneyra né nokkuð annað vit á tónlistarflutningi þá hefur Einar Þorvaldsson séð um að halda utan um tónlistarhlutann af sýningunni.“

Systkinin frá Brekkukoti þau Simgmundur og Sæunn tóku þátt
í Pungar og pelastikk sem sýnt var fyrir fimm árum.

Nú hafið þið sett saman leikrit áður, verður þetta auðveldara með tímanum?
„Nei, þetta verður ekki auðveldara þar sem við eldumst svo hratt með hverri uppsetningu. Við vitum að hverju þarf að huga og hvað þarf að gera en það verður ekkert auðveldara. Já og ekki verðum við mikið skipulagðari heldur með tímanum.“

Þær Jóhanna og Berglind vilja í lokin þakka öllum hæfileikabúntum sýningarinnar kærlega fyrir samstarfið og vonast þær til að allir hafi skemmt sér vel þessar vikurnar. „Einnig viljum við biðja fólk um að halda væntingum í lágmarki því þá verður upplifunin þeim mun betri,“ segir Jóhanna og Berglind bætir við að það sé vert að taka það fram að þetta sé ekki barnvæn sýning. „Hún er ekki bönnuð börnum en hún er heldur ekki við hæfi barna. Þetta er svona ævintýri fyrir fullorðna,“ segir hún.

Sýningar á  Villimenn og villtar meyjar verða tvær næstkomandi laugardag, 22. október, í Höfðaborg á Hofsósi og hefst fyrri sýning klukkan 19:30 og sú seinni 22:30. Svo er ein sýning ráðgerð í Miðgarði í Varmahlíð 28. október kl. 20:30. Miðapantanir eru í síma 834-6153 og kostar miðinn 4.000 krónur.

Feykir hvetur alla til að láta þetta meistarastykki ekki fram hjá sér fara og helst að fjölmenna svo hressilega að það þurfi a.m.k. þrjár aukasýningar.

---

Uppfært-
Í upphaflegum myndatexta hér fyrir ofan stóð að Kristján Jónsson og Auður Björk hafi tekið þátt í Pungar og pelastikk sem sýnt var fyrir fimm árum en myndin er alls ekki af þeim heldur systkinunum frá Brekkukoti þeim Simma og Sæunni. Þessi villa mun því miður lifa að eilífu í prentuðum Feyki sem kom út í dag. Viðkomandi eru beðin afsökunar á þessu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir