Kjör til Manns ársins 2021 á Norðurlandi vestra

Eins og undanfarin ár stendur Feykir fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra. Gefst íbúum á svæðinu og öðrum lesendum Feykis kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum. Í þetta skiptið bárust sjö tilnefningar sem teknar voru til greina.

Hægt verður að greiða atkvæði á vefnum Feykir.is eða senda atkvæði í pósti á: Feykir, Borgarflöt 1, 550 Sauðárkróki. Kosning er þegar hafin og lýkur kl. 12 á hádegi á nýársdag, 1. janúar.

Tilnefndir eru, í stafrófsröð:

Auðunn Blöndal brottfluttur Króksari
Fjölvarparinn og skemmtikrafturinn Auðunn Blöndal hefur látið hendur standa fram úr stuttermum í ár. Í byrjun árs sýndi Stöð2 frábæra þætti hans um íslenskt tónlistarfólk og nú í haust var frumsýnd bíómyndin Leynilögga sem byggð er hugmynd hans og hann leikur aðalhlutverkið í. Myndin sló óvænt í gegn á heimsvísu og gekk vel á Íslandi. „Auddi er einn vinsælasti útvarps-, hlaðvarps- og sjónvarpsmaður landsins og er ófeiminn við að minna alla á að hann er af Króknum.“

 

Árni Björn Björnsson Sauðárkróki
Árni Björn er eigandi veitingastaðarins Hard Wok Cafe á Aðalgötunni á Sauðárkróki, ásamt Ragnheiði Ástu Jóhannsdóttur konu sinni, en þau hafa verið ósínk að rétta fram hjálparhönd við ýmis málefni og styðja við það sem er að gerast í samfélaginu. „Til dæmis karfan, stuðningur við fjölskyldu Erlu og svo ótalmargt annað. Þau gera mjög mikið fyrir okkar samfélag og alltaf tilbúin að rétta hjálparhönd.“

 

Bóthildur Halldórsdóttir Blönduósi
Bóta, eins og hún er kölluð, heldri borgari á Blönduósi, er einstök að flestu leyti. „Hún er einfaldlega alltaf að hjálpa öðrum, hvort heldur það er að heimsækja þá sem eru einmanna á sjúkrastofnun eða út í samfélaginu, skutla ef þarf og eða fyrir aðra, dreifir gleði hvar sem hún fer og ætlast aldrei til neins í staðin. Æðrulaus kona sem man tímana tvenna og kallar ekki allt „ömmu“ sína. Slíkar hvunndagshetjur fá sjaldan eða aldrei viðkenningu en ættu þó það svo margfaldlega skilið.“

 

Gústav F. Bentsson Steini Reykjaströnd
Síðastliðinn apríl hætti Gústav störfum hjá svf. Skagafirði eftir 33 ára starf og byrjaði að götusópa fyrir sveitarfélagið, stofnanir og fyrirtæki. „Hann ver mest öllum sínum tíma í að halda götum í Skagafirði í góðu standi en einnig sýgur hann upp úr niðurföllum í sveitarfélaginu og hugsar sífellt um aðra. Hörkuduglegur maður sem alltaf er reiðubúinn að hjálpa vinum og vandamönnum.“

 

Hjalti Pálsson Sauðárkróki
Hjalti er ritstjóri Byggðasögu Skagafjarðar. „Hann á skilið að vera valinn Norðvestlendingur ársins 2021 en á því ári kom út tíunda og síðasta bindið í ritröðinni. Vinnan hefur staðið yfir í ríflega aldarfjórðung og það er næsta víst að aldrei hefur verið tekin saman jafn viðamikil og ítarleg byggðasaga. Einstakt verk!“

 

Ómar Bragi Stefánsson Sauðárkróki
Ómar Bragi hefur glatt og sameinað Skagfirðinga nær og fjær með Facebook-síðu sinni Skín við sólu. Hópinn mynda 5.700 Skagfirðingar sem deila myndum og sögum af Skagafirði á jákvæðan hátt. „Þetta hefur lyft umræðu á jákvæðara plan, brottfluttir fengið tækifæri til að minnast æskuslóða og vettvangur fyrir alla til að deila því góða sem er að gerast. Þetta framtak er til fyrirmyndar og ættu fleiri svæði á NV-landi að gera hið sama. Síðan er ómetanleg heimild og hefur tengt marga á tímum sem hefur jafnan verið mörgum erfiður.“

 

Sigurjón H. Sigurbjörnsson Garði Hegranesi
Sigurjón lenti í bílslysi í byrjun september með þeim afleiðingum að hann varð fyrir hlutaskaða og er á Grensás núna í endurhæfingu. Hann á þessa tilnefningu skilið vegna þess hve jákvæður og duglegur hann er eftir slysið og staðráðin í því að ganga á ný. „Að vera bara 17 ára og lenda í svona alvarlegu slysi og öllu kippt undan þér, lokaður inn á Grensás þar sem Covid er ekki að hjálpa til og engin má koma í heimsókn núna. Hann er samt alltaf brosandi og jákvæður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir