Kosning um Mann ársins 2020 á Norðurlandi vestra er hafin

Sigurður Hansen í Kringlumýri í Blönduhlíð hlaut flest atkvæði í kjöri til Manns ársins 2019. Í tilnefningu segir um Sigurð: „Uppbyggingin á Kakalaskála er stórmerkilegt þrekvirki og ekki síður eitt merkasta og mesta útilistaverk landsins, til minningar um Haugsnesbardaga. Í sumar opnaði hann sýningu fjórtán alþjóðlegra listamanna sem sköpuðu margbrotin verk um hina stórkostlegu sögu Sturlunga, í Kakalaskála sem ber heitið Á söguslóð Þórðar kakala. Svo í dauða tímanum gaf hann út á haustdögum ljóðabókina Glóðir.“
Sigurður Hansen í Kringlumýri í Blönduhlíð hlaut flest atkvæði í kjöri til Manns ársins 2019. Í tilnefningu segir um Sigurð: „Uppbyggingin á Kakalaskála er stórmerkilegt þrekvirki og ekki síður eitt merkasta og mesta útilistaverk landsins, til minningar um Haugsnesbardaga. Í sumar opnaði hann sýningu fjórtán alþjóðlegra listamanna sem sköpuðu margbrotin verk um hina stórkostlegu sögu Sturlunga, í Kakalaskála sem ber heitið Á söguslóð Þórðar kakala. Svo í dauða tímanum gaf hann út á haustdögum ljóðabókina Glóðir.“

Feykir stendur fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra líkt og gert hefur verið undanfarin ár. Íbúum á svæðinu og öðrum lesendum Feykis gefst kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum. Í þetta skiptið bárust tilnefningar um sjö einstaklinga. Hægt verður að greiða atkvæði á vefnum Feyki.is eða senda atkvæði í pósti á Feykir, Borgarflöt 1, 550 Sauðárkrókur. Kosningin er hafin og lýkur á miðnætti á nýársdag, 1. janúar.

 

Tilnefndir eru, í stafrófsröð:

Andri Páll Guðmundsson frá Hvammstanga

Andri Páll er tilnefndur fyrir framlag sitt til íslenskrar matargerðar, þá sérstaklega fyrir laufabrauðstacoið sem hann bjó til. Andri vakti athygli á samfélagsmiðlum á dögunum fyrir nýstárlega útgáfu af laufabrauði sem hann bakaði í ofni til að ná fram taco-forminu. Brauðið fyllti hann svo með hangikjötshakki, heitu rauðkáli, grænbaunasalsa og uppstúf og kreisti mandarínu yfir í lokin.

 

Bryndís Rut Haraldsdóttir Varmahlíð

Bryndís er fyrirliði kvennaliðs Tindastóls sem sigraði Lengjudeild kvenna með miklum glæsibrag í sumar. Þar fór Bryndís fyrir sínu liði í hjarta varnarinnar sem fékk aðeins á sig sjö mörk í 17 leikjum. Í tilnefningu segir að Bryndís Rut hafi verið jákvæð og hugrökk, stjórnað sínu liði með góðu fordæmi og talanda og vart stigið feilspor á vellinum. Hún er fyrsti fyrirliði knattspyrnuliðs í sögu Tindastóls sem leiðir lið sitt upp í efstu deild.

 

Karólína Elísabetardóttir Hvammshlíð, Austur-Húnavatnssýslu

Karólína býr afskekkt upp til fjalla í Norðurárdal austan Þverárfjalls. Karólína hefur vakið athygli fyrir að vera dugleg að bjarga sér og í tilnefningu segir að hún standi sig eins og hetja við mjög sérstakar aðstæður. Meðal þess sem Karólína hefur tekið sér fyrir hendur er að gefa út dagatöl með myndum af dýrunum á bænum í forgrunni og hafa þau notið mikilla vinsælda. 

 

Lilja Gunnlaugsdóttir Áshildarholti, Skagafirði

Lilja starfar sem læknaritari við HSN á Sauðárkróki. Í tilnefningu segir að Lilja hafi á aðdáunarverðan hátt byggt upp líf sitt við breyttar aðstæður eftir að hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika undanfarin ár. Lilja skrifaði og gaf út í haust bókina Dagbókin mín sem unnin er eftir hugmyndum um jákvæða sálfræði. Einnig hefur hún skrifað blogg um það hvernig er að lifa með sorginni og hafa bæði bókin og bloggið hjálpað mörgum.

 

Sveinn Margeirsson frá Mælifellsá í Skagafirði

Sveinn er tilnefndur fyrir baráttu sína fyrir málefnum sauðfjárbænda og að hafa reynt að hrista upp í „algjörlega stöðnuðu kerfi“ eins og segir í tilnefningu. Sveinn var kærður fyrir að selja heimaslátrað kjöt á bændamarkaði Matís á Hofsósi haustið 2018 og í kjölfar þess kærði Matvælastofnun hann og Matís sagði honum upp störfum sem forstjóra fyrirtækisins. Á haustdögum var Sveinn sýknaður í  Héraðsdómi Norðurlands vestra. „ Margir eru efins um að aðrir opinberir starfsmenn hafi lagt eins mikið af mörkum til að þoka málum í rétta átt eins og Sveinn Margeirsson hefur gert. Hann á heiður skilinn fyrir dugnað sinn og elju við að berjast fyrir lífsafkomu heillar starfsstéttar,“ segir í tilnefningu. 

Valdimar Guðmannsson Blönduósi 

Valdimar fær tilnefningu fyrir þrotlausa og óeigingjarna vinnu hans fyrir kirkjugarðinn á Blönduósi og dugnað og hvetjandi framkomu fyrir sitt samfélag. „Valdimar hefur verið gríðarlega öflugur og í fararbroddi í endurbótum við kirkjugarðinn á Blönduósi og lagt fram mikla vinnu og óeigingjarna. Auk þess hefur hann staðið fyrir geysivinsælum kótilettukvöldum og stutt góð samfélagsverkefni í samfélaginu,“ segir í tilnefningu.

 

Þórólfur Gíslason Sauðárkróki  

Þórólfur erkaupfélagsstjóri Kaupfélags Skagfirðinga og hefur staðið í stafni sístækkandi skútu Kaupfélags Skagfirðinga undanfarin ár en rekstur KS hefur verið með eindæmum góður í langan tíma. „Í ár á Þórólfur skilið tilnefningu sem maður ársins sökum einstakrar gjafar KS og dótturfyrirtækja þess til Fjölskylduhjálpar Íslands sem nú fyrir jólin gefur sem nemur 50 þúsund máltíðum,“ segir í tilnefningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir