Malen syngur Please Don't Go

Malen. AÐSEND MYND
Malen. AÐSEND MYND

Nýlega gaf Malen Áskelsdóttir út frumsamið lag, Please Don't Go, en hún er Króksari, dóttir Völu Báru og Áskels Heiðars. Hún sendi frá sér lag í vor sem var hressilegt en nú er hún á ljúfari nótum. Malen var í söngnámi í Kaupmannahöfn í fyrra en auk þess að syngja spilar hún á hljómborð og gítar. Fyrst lærði hún þó á fiðlu hjá Kristínu Höllu. Malen segir lesendum frá því hvernig lagið varð til.

Hvað geturðu sagt okkur um lagið Please Don't Go? Lagið samdi ég þegar ég var í söngnámi í Kaupmannahöfn árið 2019. Kærastinn minn fór með mér út, skoðaði borgina með mér og hjálpaði mér að koma mér fyrir, en svo þurfti hann að fara aftur heim til Íslands að klára háskólanámið sitt. Dagurinn sem hann átti flug heim var sami dagur og fyrsti skóladagurinn minn og því sami dagur og ég þurfti að læra að hjóla á götum Kaupmannahafnar – sem ég var ekki viss um að ég myndi lifa af! 

Ég man að ég varð stressuð og lítil í mér að vera orðin ein á báti og mig langaði helst að hringja í kærastann og suða í honum að fara ekki frá mér. Þá kom innblásturinn fyrir lagið. Með tímanum varð auðvitað allt léttara, ég kynntist frábæru fólki, mér fannst námið mjög skemmtilegt og það var ÆÐI að hjóla alltaf á milli staða. Mig langaði samt að semja lag um söknuð, ég hugsaði til þeirra sem þurfa að vera í fjarsambandi í mörg ár og útkoman varð þetta lag. Ég flutti lagið á tónleikum í skólanum og var það í fyrsta skipti sem ég flutti frumsamið lag. 

Hvenær var lagið svo tekið upp? Ég tók lagið upp í september síðastliðnum hjá Stefáni Erni Gunnlaugssyni og Sauðkrækingurinn Reynir Snær Magnússon spilaði á gítar. Ég vona að þið njótið. Þetta lag var byrjunin en ég hef samið mörg síðan og er með lag í upptökuferli núna, hjá Vigni Snæ Vigfússyni, sem kemur vonandi út sem fyrst. 

Hvar finnum við þig? Þið finnið mig á Spotify undir nafninu Malen.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir