Nafli jarðar - myndir Hjálmars Stefánssonar frá Smyrlabergi

Föstudaginn 17. júlí kl. 17:00 verður opnuð sýning á verkum Hjálmars Stefánssonar frá Smyrlabergi í fjóshlöðunni á Kleifum við Blönduós. Á sýningunni sem ber yfirskriftina Nafli jarðar gefur að líta 127 málverk sem fengin eru að láni hjá ættingjum og vinum listamannsins.

Hjálmar Stefánsson fæddist árið 1913 á Smyrlabergi á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu. Hann hlaut nokkra menntun og stundaði ýmsa vinnu á yngri árum, m.a. fylgdi hann Kjarval þegar málarinn var á ferð um Norðurland vestra. Hjálmar var alla tíð einfari og átti lengi við vanheilsu að stríða. Rúmlega þrítugur að aldri flutti hann á Blönduós og tók að mála myndir af mikilli ástríðu. Hann var bókhneigður og eftir hann liggur óútgefið handrit með hugleiðingum, Nafli jarðar. Hjálmar lést árið 1989.

Hjálmar telst til alþýðulistamanna þar sem hann var ómenntaður í listinni. Þó bera verk hans ekki eingöngu einkenni naívískrar nálgunar því í mörgum þeirra er að finna sterk einkenni módernískrar myndgerðar. Hjálmar hefur haft einstaklega næmt auga fyrir litum og litasamsetningum og margar mynda hans eru algjörar perlur.

Að sýningunni lokinni verður bróðurpartur myndanna færður Safnasafninu á Svalbarðsströnd til varðveislu. Sýningin verður opin frá 10 til 22 alla daga. Henni lýkur sunnudaginn 26. júlí.

Þetta er í þriðja sinn sem hjónin Áslaug Thorlacius og Finnur Arnar Arnarson standa fyrir myndlistarsýningum í útihúsunum á Kleifum en árið 2017 settu þau upp sýninguna Ekkert jarm með verkum eftir Ragnar Kjartansson, Doddu Maggý, Olgu Bergmann og Önnu Hallin og Egil Sæbjörnsson. Fyrir þá sýningu hlutu þau Menningarverðlaun DV. Árið 2018 settu þau upp sýninguna Innljós á verkum Sigurðar Guðjónssonar í samstarfi við Listasafn ASÍ. Fyrir þá sýningu hlaut Sigurður Íslensku myndlistarverðlaunin 2018.
/Fréttatilkynning

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir