Sigurdís Sandra fetar í fótspor afabróður síns, Jónasar Tryggvasonar, og semur kórverk

Sigurdís Sandra Tryggvadóttirá burtfarartónleikunum sínum frá FÍH vorið 2017. Mynd: Halla Ósk Heiðmarsdóttir.
Sigurdís Sandra Tryggvadóttirá burtfarartónleikunum sínum frá FÍH vorið 2017. Mynd: Halla Ósk Heiðmarsdóttir.

Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, frá Ártúnum í Blöndudal, stundar rytmískt píanónám við Syddansk Musikkonservatorium í Óðinsvéum í Danaveldi. Í næstu viku mun Odense Kammerkor frá Danmörku halda tónleika á Íslandi þar sem meðal annars verk eftir Sigurdísi Söndru Tryggvadóttur verður flutt. Verkið er samið við ljóðið Ísland, eftir afabróður Sigurdísar, Jónas Tryggvason frá Finnstungu en Jónas var brautryðjandi í tónlistarstarfi í Austur-Húnavatnssýslu á sínum tíma og samdi sjálfur nokkur kórverk, það þekktasta, Ég skal vaka.

Verkið Ísland verður frumflutt í Akureyrarkirkju þann 16. október klukkan 19:30 og svo flutt aftur í Norræna húsinu í Reykjavík 18. október klukkan 20:00. Sigurdís Sandra segir að eitt það skemmtilegasta við að starfa við tónlist séu þau fjölbreyttu tækifæri sem henni býðst. Fyrr á árinu samdi hún og útsetti verk fyrir Stórsveit Reykjavíkur, sem flutt var á tónleikum í Hörpunni í Reykjavík og nú er komið að Odense Kammerkor, 21 manna kór, stjórnaður af Uffe Most, að flytja kórverk eftir hana í ferð sinni til Íslands.

„Kórtónlist hefur alltaf átt stað í hjarta mínu. Ég hef hlustað ótal sinnum á plötuna Tónar í tómstundum, í flutningi Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps, þar sem afi minn, Jón Tryggvason, var meðal stjórnenda og bróðir hans, Jónas Tryggvason, samdi og útsetti nokkur verkanna, þar á meðal Ég skal vaka. Þegar ég stundaði nám við Tónlistarskóla FÍH í Reykjavík byrjaði ég að fá áhuga á að semja lög við texta og urðu nokkur ljóð úr ljóðabók Jónasar, Harpan mín í hylnum (1959), fyrir valinu. Jónas varð blindur um tvítugt og eiga mörg ljóða hans sameiginlegt að vera myndræn og andstæðukennd, togstreita á milli ljóssins og myrkursins,“ segir Sigurdís Sandra.

Hjónin Þorbjörg Bergþórsdóttir og Jónas Tryggvason.Þegar henni var boðið að semja fyrir Odense kammerkor, urðu fjögur erindi úr ljóðinu Ísland, eftir Jónas, fyrir valinu. „Mér fannst ljóðið heillandi lýsing á okkar fallega landi, en gleymdi að hugsa út í það að ljóðið er einn langur tungubrjótur fyrir Dani. En eftir stífar æfingar hjá kórnum mætti ég á lokaæfingu hér í Danmörku og kom það mér skemmtilega á óvart hversu vel framburðurinn gekk. Lagið samdi ég á tónsmíðanámskeiði sem ég var á á Ítalíu nú í sumar og fyrir einhverja ótrúlega tilviljun passaði það nánast óbreytt við ljóðið.“

Auk flutnings á verki Sigurdísar verður einnig frumflutt verkið Liljur eftir tónskáldið Huga Guðmundsson og á tónleikunum kemur fram, ásamt Odense Kammerkor, Kammerkórinn Hymnodia.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir