Stofu Stólarnir komnir í stellingarnar

Ekki virtist vanta í heiminn fleiri körfubolta-poddköst en svo fór stuðningsmönnum Tindastóls að berast vinabeiðnir í vikunni frá Stofu Stólunum. Fyrsta útsending var einskonar poddkasts- og Skype-fundarblanda sem Feykir ætlar ekki að skilgreina nánar. Í fyrstu útsendingu mátti sjá glerharðan stuðningsmann Stólanna úr Hlíðahverfi borgar óttans, Eika Hilmis, og flauelstenór TindastólsTV, Eystein Guðbrandsson, ræða mikilvæg körfumál og skella í andlit áhorfenda óritskoðuðum spám fyrir veturinn. Feykir reyndi að setja sig í samband við höfuðpaurinn.

Ómögulegt reyndist fyrir blaðamann að átta sig á hvort samband náðist við Eika sjálfan eða náskyldan ættingja hans, Lobba Spör, en margt er líkt með skyldum. Fyrst var spurt hvað hér væri í gangi og svar barst í Facebook-skilaboðum, eftir vinnu en fyrir fyrsta leik. „Stofu Stóllinn er eins og nafnið bendir til svar glerharðra stuðningsmanna Tindastóls í körfu við sóttvarnarreglum og fjarlægðartakmörkunum Landlæknisembættis. Þegar ekki má hittast í þröngum hópum til að fara yfir og undirbúa sig fyrir næsta leik, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur, þá var ákveðið að nýta veraldarvefinn og Skype til að gera hitting þar sem menn hafa tækifæri til að blása út hverju sem þörf er á.“

Hvernig fer þetta fram? „Þetta fer þannig fram að þeir sem vilja vera með í næsta þætti, eða telja sig hafa eitthvað umummæli fyrri þátta að segja, senda FB skilaboð á Stofu Stólana. Stjórnarfundur tekur ákvörðun um næstu skref og menn fá leiðbeiningar um hvernig hægt er að vera með í þættinum sem verður á FB.“

Verður Stofu Stóllinn á föstum tímum í vetur? „Eftir að hafa prófað að fasta seint á síðustu öld hefur Lobbi enga trú á föstum tímum svo þættirnir verða sennilega vikulega, helst fyrir hvern leik Tindastóls, fer þó eftir þátttöku svo við hvetjum alla til að setja sig í samband og vera með. Takmarkið er auðvitað að gera eitthvað skemmtilegt og vera að bauka eitthvað.“

Eflaust hafa einhverjir orðið varir við hækkun blóðþrýstings þegar Eysteinn spáði liði Tindastóls þriðja sæti í deildarkeppninni og ekki hefur ástandið batnað þegar Eiki spáði Stólunum sjötta sæti og sagði það vera góðan árangur þar sem Tindastóll væri lítill klúbbur – ólíkt Stjörnunni, KR og Val og mögulega Keflavík.

Hvað á það þýða að spá Stólunum sjötta sæti? „Eins og fram kemur í fyrsta þætti hefur Lobbi alltaf haldið mest upp á töluna sex, sérlega eftir að hann lærði ensku. Það eru tólf lið í deldinni, þá er sex um miðbikið en það er einmitt annað áhugamál Lobba.“

Hvernig leggst tímabilið í þig? „Tímabilið leggst mjög vel í okkur Stofu Stóla. Vonandi leggjast allir á árarnar til að gera þetta að skemmtilegum vetri og eftirminnilegum, t..d. með því að taka þátt og koma í þáttinn,“ segja Eiki eða Lobbi að lokum. Og nú er bara um að gera að vera memm!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir