TAKE A WALK / Passion Pit

Það er vinsæl íþrótt að deila um hvort lög eru góð eða slæm. Ekki þarf nú meira en nokkrar popplummur í Söngvakeppni Sjónvarpsins til að koma talsverðu tilfinningaróti á íslenska þjóð. Það er því rétt að taka lista yfir bestu lög eða bestu plötur ársins ekki alltof alvarlega. Enda fjallgrimm vissa fyrir því að það sem Bubba Morthens þykir gott og gilt þótti Hauki frænda vera helst til villt – og báðir höfðu auðvitað rétt fyrir sér. Lagið að þessu sinni er með hljómsveitinni Passion Pit og kallast Take a Walk og komst ofarlega á nokkrum listum varðandi val á lögum ársins 2012.

Passion Pit er amerískt indí-rokk-band frá Cambridge Massachusetts, sett á laggirnar árið 2007 og áttu meðlimir bandsins það sameiginlegt að hafa allir stundað nám við Berklee College of Music í Boston-þorpi – nema reyndar aðalsöngvarinn, Michael Angelakos sem hafði stundað nám við Emerson College.

Fyrsta lagið sem hljómsveitin sendi frá sér ku hafa verið síðbúin Valentínusargjöf til kærustu Angelakosar en fyrsta stuttskífa Passion Pit kom út haustið 2008. Fyrsta breiðskífan, Manners, kom út 2009 en um mitt síðasta sumar kom önnur skífan út og kallaðist hún Gossamer. Hún skreið í 4 sæti á bandaríska vinsældalistanum.

Take a Walk var að mati Rolling Stone þriðja besta lagið árið 2012. Þar er sagt að þessi svuntuþeysasmellur sé eitt besta kreppulagið, sungið er um að lífeyririnn sé á bak og burt en einfalt og grípandi viðlagið minnir á til hvers popptónlistin er – nefnilega til að hjálpa við að deifa sársaukann.

http://www.youtube.com/watch?v=dZX6Q-Bj_xg

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir