Tónleikar til styrktar Úkraínu

Frá æfingu Úkraínuhópsins. Steinn Leó mundar bassann, Rögnvaldur Valbergs eins og klettur á slaghörpu, Sigurður Björnsson á trommur og tvíburabræðurnir Róbert Smári og Ingi Sigþór Gunnarssynir þenja raddböndin. Mynd: Anna Szafraniec.
Frá æfingu Úkraínuhópsins. Steinn Leó mundar bassann, Rögnvaldur Valbergs eins og klettur á slaghörpu, Sigurður Björnsson á trommur og tvíburabræðurnir Róbert Smári og Ingi Sigþór Gunnarssynir þenja raddböndin. Mynd: Anna Szafraniec.

Úkraínuhópurinn í samvinnu við Rauðakrossinn og Menningarfélag Gránu heldur tónleika næstkomandi fimmtudagskvöld í Sauðárkrókskirkju kl. 20:00 og mun ágóði þeirra renna óskiptur til bágstaddra í Úkraínu. Hugmyndin að tónleikunum kom frá Önnu Szafraniec á Sauðárkróki, sem fékk Rauða krossinn og Menningarfélag Gránu í lið með sér ásamt fjölda tónlistarfólks í Skagafirði.

Anna er pólsk að uppruna en hefur búið á Sauðárkróki sl. 20 ár. Segir hún að í Póllandi sé mikill fjöldi flóttamanna frá Úkraínu og flestir hafast þeir við í stórborgum nærri landamærum ríkjanna. „Þannig að ég tengist þessu óbeint þó að ég sé langt í burtu. Þetta ástand stakk mig í hjartað en allir að hjálpast að svo ég hugsaði að ég yrði að gera eitthvað líka. Ég velti fyrir mér hvað ég gæti gert, bakað eða eitthvað annað, og fékk margar hugmyndir en allt það sem mér datt í hug myndi skila litlum upphæðum. Þarna var maðurinn minn að fara á æfingu og ég hugsaði; já hann er að fara á æfingu, og fór með honum og sagði frá hugmyndinni og það var strax vel tekið í hana og þannig fór þetta af stað,“ segir hún en maðurinn sem um ræðir er Sigurður Björnsson, bassaleikari og trommari og æfingin var vegna annarra tónleika.

Anna er spennt fyrir kvöldinu enda margir sem koma að hljóðfæraleik og söng. „Við erum með alls konar söngvara, klassíska, popp o.fl. og eitthvað verður á úkraínsku,“ segir hún en Feykir hefur fregnað það að hún muni flytja einmitt úkraínska lagið ásamt Láru 12 ára dóttir hennar.

„Þetta er allt að smella og lítur mjög vel út en þetta er gert í samstarfi við Rauða krossinn þar sem allur peningur sem safnast fer í gegnum hann. Ekki er rukkað inn á tónleikana en söfnunarkassi Rauða krossins verður í anddyrinu þar sem tekið er við frjálsum framlögum. Þá má geta þess að verslun Rauða krossins á Sauðárkróki verður opin um daginn og fram að tónleikum og allur ágóði sölu þess dags rennur í sama sjóð sem afhentur verður Rauða krossinum í einu lagi og eyrnamerktur Úkraínu. Í boði verður að styrkja málstaðinn með framtaki ef fólk kemst ekki á staðinn en einnig er hægt að leggja inn á söfnunarreikning: Reikningsnúmer 0310-26-050602, kt: 620780-0229. „Við erum með æðislegt fólk sem er búið að æfa og æfa og allir gefa sína vinnu.“

Anna segir marga hafa flúið til Póllands frá Úkraínu og ástandið erfitt en allir leggist á árar til að veita flóttafólki hjálp. Hún segir Pólverja á Sauðárkróki eiga fjölskyldur úti sem jafnvel hýsa 20 manns inni á heimilum sínum. „Þau opnuðu hús sín og almenningur í Póllandi gerir góða hluti, m.a. útvega föt, mat og fleira. Ég hef líklega aldrei verið eins stolt af uppruna mínum og nú,“ segir Anna og hvetur alla til að mæta í kirkjuna á fimmtudagskvöldið og hlýða á skagfirskt tónlistarfólk flytja skemmtilega músík.

Þeir sem fram koma eru:

Silla og Fúsi
Ester Indriðadóttir
Bræðurnir Róbert Smári og Ingi Sigþór Gunnarssynir
Íris Olga Lúðvíksdóttir
Gunnar Rögnvaldsson
Helga Rós Indriðadóttir
feðginin Guðbrandur Ægir og Ása Svanhildur
og mæðgurnar Anna og Lára Sigurðardóttir.

Um hljóðfæraleik sjá þau Rögnvaldur Valbergsson, Sigurður Björnsson, Steinn Leó Sveinsson, Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson, Kári Marísson, Brynjar Rögnvaldsson og Rina Sommi.

Hér fyrir neðan má heyra lag Guðbrands Ægis við ljóð bróður hans, Skarphéðins Ásbjörnssonar. „Ég var byrjaður að semja lag á píanó þegar Diddi bróðir setti sama dag út ljóð (lagatexta) á Facebook. Ég sá að ég gat notað lagið og kláraði með hliðsjón af textanum. Svo kom Anna hans Sigga í Ketu með þessa hugmynd um að halda þessa styrktartónleika og við Röggi ákváðum að gera demó af laginu í auglýsingatilgangi. Úlfar Ingi bauðst til að ljá sína bassakrafta og Ása Svanhildur syngur. Röggi spilaði svo önnur hljóðfæri inn og við Ása settum bakraddir,“ útskýrir Ægir.

Tónleikar í Sauðárkrókskirkju í Sæluviku til styrktar stríðshrjáðum í Úkraínu

Posted by Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson on Mánudagur, 25. apríl 2022

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir