TROUBLE / Taylor Swift

Ojjj, Justin Bieber! Jukk, Call Me Maybe!! Taylor Swift? Ertekkaðdjókaímjer?!! – Halló! Ekki gera grín að Taylor Swift, hún er bara snillingur. Lagið að þessu sinni er Trouble sem á hinu ylhýra útleggst sem Vesen.

Taylor Swift er 23 ára stúlkukind, alin upp í Wyomissing í Pennsylvaníu en aðeins 14 ára gömul dröslaðist hún til kántríhöfuðborgar heimsins, Nashville í Tennesí-fylki, til að skapa sér feril til frægðar og frama í gegnum kántrítónlistina. Hún gaf út sína fyrstu skífu 16 ára gömul og restin er lygasögu líkust.

Taylor Swift er lunkinn lagasmiður og bráðsnjöll í að setja saman texta sem grípa, oftar en ekki eru þeir byggðir á reynslu og upplifunum hennar sem unglingur eða ung kona. Hún er eiginlega búin að vinna öll þau verðlaun sem hugsast getur og er auðvitað fyrir löngu búin að sprengja af sér kántrí-fjötrana.

Frá því að fyrsta skífan kom út hefur Taylor Swift gefið út skífur á tveggja ára fresti sem þýðir því að sú nýjasta, Red, kom út í fyrra. Þar semur hún sjálf níu lög en sex til viðbótar eru samin í samvinnu við nokkra vinsælustu lagahöfunda samtímans. Fyrsta smáskífan var með laginu We Are Never Ever Getting Back Together en númer tvö er Trouble.

Rétt er að benda á að í myndbandinu byrjar lagið sjálft ekki fyrr en eftir um tvær mínútur.

http://www.youtube.com/watch?v=vNoKguSdy4Y

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir