Afmælishátíð Reykjaskóla í Hrútafirði

Í ár eru 80 ár liðin frá upphafi skólastarfs að Reykjum í Hrútafirði og verður þess minnst með sérstakri afmælisdagskrá næstkomandi sunnudag, þann 28. ágúst.

Héraðsskólinn að Reykjum tók til starfa árið 1931 og starfaði til ársins 1988 að undanskyldum árunum 1940 – 1943, á tímum síðari heimstyrjaldarinnar, en þá hafði breskt setulið aðsetur á Reykjatanga og þar með í skólanum.

Skólabúðir tóku til starfa í Reykjaskóla haustið 1988 og hafa starfað óslitið síðan. Þar eru nemendum grunnskóla víðsvegar að af landinu gefinn kostur á vikudvöl í skólabúðunum. Árlega koma á bilinu 2800-3000 börn í skólabúðirnar og miðast starfstíminn að mestu við skólaár grunnskóla landsins.

Dagskrá afmælishátíðarinnar er öllum opin og eru fyrrverandi starfsmenn, nemendur, íbúar nærliggjandi sveitarfélaga og aðrir velunnarar skólans boðnir velkomnir.

Dagskrá hátíðarinnar er svohljóðandi:

  • Klukkan 14:00-17:00
    Opið hús í Reykjaskóla. Allar byggingar skólans eru opnar gestum afmælishátíðarinnar.
  • Klukkan 14:00-15:00
    Hátíðardagskrá í Bjarnaborg, ávörp og tónlistarflutningur.
  • Klukkan 15:00-17:00
    Kaffiveitingar í matsal skólans.

Í tilefni afmælishátíðarinnar verður Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna að Reykjum í Hrútafirði opið fyrir gesti frá klukkan 10:00-17:00.

Fleiri fréttir