Áhyggjur af fjölgun umferðaslysa
Morgunblaðið fjallar um á vef sínum Mbl.is að aukin tíðni umferðaslysa í Húnaþingi vestra valdi miklum áhyggjum. Rætt er við Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi, og Svein Karlsson, bifvélavirkja á Borðeyri við Hrútafjörð sem hefur þjónustað lögregluna á Blönduósi undanfarin 20 ár með dráttarbíl ef umferðaróhöpp verða í Húnaþingi vestra, frá Víðidalsá upp á miðja Holtavörðuheiði. Báðir segja þeir sl. ár hafa verið sérstaklega annasamt.
„Ég hef orðið miklar áhyggjur af aukinni tíðni umferðarslysa hérna á svæðinu. Oft hefur þetta verið slæmt en ég hef aldrei verið kallaður út oftar en á síðasta ári,“ segir Sveinn en hann hefur verið kallaður út vegna 60 óhappa á svæðinu, langflest á hringveginum. Í þessum óhöppum dró Sveinn burtu um 40 ónýtar bifreiðir og í sumum tilvikum urðu alvarleg slys á fólki.
Rætt er um mögulegar skýringar á þessari aukningu umferðaslysa og Sveinn vill ekki meina að það skýringin liggi í slæmum vegum. Þjóðvegurinn sé yfirleitt beinn og sléttur, lítið er um brattar brekkur og að þjónustan á vegunum sé jafnframt mjög góð. Hann segir einn kafla þó verri en aðra, þ.e. kringum brúna yfir Miklagil á norðanverðri Holtavörðuheiði. Þar safnist saman snjór í suðvestanátt sem geti gert ökumönnum lífið leitt. Þá segir Sveinn einnig hafa orðið nokkur óhöpp á malarvegunum á Vatnsnesi og á Laxárdalsheiði.
Ein möguleg skýring er sögð vera aukning ferðamanna á svæðinu og þátt þeirra í umferðarslysum. Sveinn segir erlenda ferðamenn nokkuð áberandi núna í seinni tíð, helst sé það í minniháttar óhöppum þegar þeir aka út af eða lenda í öðrum vandræðum, t.d. á Vatnsnesinu. Þau hafi verið sérlega áberandi núna yfir hátíðarnar en þrjú slík útköll voru síðasta aðfangadag jóla. Tveimur þeirra sinntu björgunarsveitirnar og hefur einnig verið mikið að gera hjá þeim, sérstaklega vegna óveðurs á Holtavörðuheiði.
Þá segir Sveinn aksturslag ökumanna ekki gott og að hann verði mikið var við auknu tillitsleysi á vettvangi óhappa, ekið sé framhjá á fleygiferð og án tillits til aðstæðna. „Maður er í rauninni í stórhættu þegar maður er að athafna sig á vettvangi og draga bíla upp á veg. Þá þarf helst að hafa lögregluna á staðnum með blikkandi ljós til að vekja athygli á okkur,“ segir Sveinn.
Samanburður á fjölda slysa erfiður
Í samtali við Morgunblaðið segist Kristján Þorbjörnsson, yfirlögregluþjónn á Blönduósi til margra ára, segir álagið vera meira í vestursýslunni, enda tilheyri Holtavörðuheiðin henni. Hann segist vel geta tekið undir áhyggjur Sveins á Borðeyri af fjölgun umferðarslysa á svæðinu.
Kristján segir samanburð á milli ára erfiðan þar sem allra minnstu óhöppin séu ekki alltaf skráð og fari lögreglan því ekki í öll útköll. Á þessu stigi sé því ekki hægt að fullyrða að fleiri slys hafi orðið í Húnaþingi vestra á síðasta ári en undanfarin ár. Með fjölgun erlendra ferðamanna í umferðinni segir Kristján erindum og beiðnum hins vegar hafa fjölgað. Nú sé kallað á aðstoð í hvert sinn sem ferðamenn festa sig í skafli eða lenda í öðrum vanda, sama hversu smávægileg atvikin eru. Lögreglan taki ekki lengur að sér að draga bíla upp á veg og því sé oftar beðið um þjónustu dráttarbíls eða björgunarsveita en áður. Einnig tekur Kristján undir með Sveini að ökumenn sýni litla tillitssemi á vettvangi slysa, þeir hægi þó eitthvað á þegar þeir sjái blikkandi ljós lögreglu.
Hér má lesa grein Mbl.is í heild sinni.