Ásgeir (Trausti) hlýtur EBBA verðlaunin

Húnvetnski tónlistarmaðurinn Ásgeir, sem þekktastur er undir nafninu Ásgeir Trausti, er búinn að koma sér rækilega á kortið á þeim stutta tíma sem hann hefur verið starfandi. Skemmst er að minnast þess er hann kynnti sitt fyrsta tónlistarmyndband í sumar, en það naut strax mikilla vinsælda.

Ásgeir er frá Laugarbakka í Miðfirði og eru vefurinn Norðarnátt í Húnaþing vestra og Mbl meðal þeirra sem síðustu daga hafa flutt fréttir af velgengni hans.

Ásgeir heldur sigurgöngunni áfram en hann er á meðal tíu handhafa EBBA verðlaunanna sem veitt verða við hátíðlega athöfn í Groningen í Hollandi þann 15. janúar. Verðlaunin eru veitt því tónlistarfólki sem þykir hafa náð  framúrskarandi árangri með tónlist sinni út yfir landamæri heimalandsins.

Sigurvegararnir eru valdir annars vegar af markaðsgreiningarfyrirtækinu Nielsen Music Control á grundvelli tónlistarsölu og útvarpsspilunar og hins  vegar með atkvæðagreiðslu innan Samtaka evrópskra útvarpsstöðva (EBU) og  tengslanets evrópskra tónlistarhátíða. Verðlaunin eru nú haldin í ellefta sinn og er þetta einungis í annað sinn sem íslensku tónlistarfólki hlotnast þessi heiður en í fyrra hlaut hljómsveitin Of Monsters and Men verðlaunin.

Fleiri fréttir