Athugað með nafnbreytingu á Grunnskóla Húnaþings vestra
Frá síðastliðnu hausti hefur fræðsluráð Húnaþings vestra verið að skoða möguleikann á nafnbreytingu á Grunnskóla Húnaþings vestra. Málið var tekið til umræðu á fundi fræðsluráðs þann 1. apríl sl.
Á fundinum fór formaður fræðsluráðs yfir þá vinnu sem hann hefur unnið vegna mögulegrar nafnbreytingar og eftir nokkrar umræður um málið var eftirfarandi tillaga samþykkt:
„Á sl. hausti kom til umræðu innan fræðsluráðs hvort finna ætti nýtt nafn á Grunnskóla Húnaþings vestra í tilefni þess að skólarnir á Hvammstanga og Laugarbakka hefðu sameinast á einum stað. Fræðsluráð fól skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra að kanna áhuga skólasamfélagsins á nafnbreytingu og voru undirtektir jákvæðar meðal nemenda og starfsmanna skólans sem og meðal foreldra grunnskólanema.“
„Lýðræðið virkjað sem mest“
Í tillögu fræðsluráðs segir einnig að kannað hafi verið meðal annarra sveitarfélaga á landinu þar sem nafnbreyting grunnskóla hefði farið fram hvernig staðið hefði verið að slíkri breytingu. Niðurstaðan var að á öllum stöðum er lýðræðið virkjað sem mest.
Fræðsluráð gerði tillögu um eftirfarandi verktilhögun:
- Óskað eftir tillögum úr sveitarfélaginu.
- Fræðsluráð/dómnefnd stillir upp lista með nokkrum mögulegum nöfnum.
- Íbúar sveitafélagsins kjósa nafn af þeim lista sem fræðsluráð/dómnefnd hefur stillt upp.
- Það nafn sem fær flest atkvæði er framtíðarnafn Grunnskóla Húnaþings vestra.
Fræðsluráð gerir ráð fyrir að hvort tveggja, tillöguinnsendingin og kosningin, fari fram rafrænt. Áætlað er að kostnaður geti numið allt að kr. 200 þús.
„Fræðsluráð mælir með því að farið verði í ofangreinda vinnu og sé það einnig vilji sveitastjórnar þá sé það hennar að ákveða hvort farið verði málið á næstu vikum með afgreiðslu aukafjárveitingar eða að málinu sé frestað fram yfir áramót og þar með til næsta fjárhagsárs,“ segir loks í tillögu fræðsluráðs.