Bóthildur Halldórsdóttir maður ársins í Húnaþingi 2010
Lesendur Húnahornsins hafa valið Bóthildi Halldórsdóttur á Blönduósi sem mann ársins í Húnaþingi 2010. Bóthildur vann með nokkrum yfirburðum en þetta er annað árið í röð sem lesendur Húnahornsins velja hana sem mann ársins.
Bóthildur er baráttukona sem hefur m.a. verið í forsvari fyrir baráttu Húnvetninga gegn niðurskurði ríkisvaldsins á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi og meðal þess sem lesendur Húnahornsins sögðu um Bóthildi í innsendum tilnefningum var þetta:
„Staðföst og trú sinni sannfæringu, lætur málefni byggðalagsins sig varða.“
„Hetja sem gefst ekki upp.“
„Endalaus baráttukraftur. Berst eins og ljón fyrir því að við höldum heilbrigðisþjónustunni okkar og hefur staðið fyrir hópfundum og fleira hvað það varðar. Hörku dugleg kona.“
„Endalaus þrautseigja í atvinnu- og réttindamálum, í bæjar-og sveitarfélagi sem henni er svo kær.“
Þetta er í sjötta sinn sem lesendur Húnahornsins velja manni ársins í Húnaþingi.
Menn ársins síðustu ár eru þessir:
2009: Bóthildur Halldórsdóttir.
2008: Lárus Ægir Guðmundsson.
2007: Rúnar Þór Njálsson.
2006: Lárus B. Jónsson.
2005: Lárus B. Jónsson.
/Húni.is