Einelti á netinu
SAFT stóð nýverið fyrir könnun á netnotkun barna og unglinga hér á landi. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um notkun barna og unglinga á netinu og nýta í kjölfarið þær upplýsingar til vitundarvakningar um möguleika netsins og örugga netnotkun barna og unglinga. Í könnuninni voru þátttakendur m.a. spurðir um ýmislegt er varðar einelti með sérstakri áherslu á netið og farsíma.
Börnin voru spurð hvort þau hefðu orðið fyrir einelti á netinu eða í gegnum farsíma og sömuleiðis hvort þau hefðu sjálf einhvern tíma sett inn/sent skilaboð, texta eða mynd á netið eða í gegnum farsíma sem var andstyggileg í garð annars einstaklings. Foreldrar voru jafnframt spurðir hvort börn þeirra hefðu orðið fyrir einelti á netinu, um viðbrögð þeirra og líðan barnanna í kjölfarið og hvort þeir vissu til þess að börn þeirra hafi lagt önnur börn í einelti á netinu.
Netið frekar notað til eineltis en farsíminn
Rétt rúm 3% íslenskra barna og unglinga sem spurð voru nú sögðust hafa sent skilaboð, texta eða mynd í gegnum farsíma sem var andstyggileg í garð annars einstaklings. Þegar spurt var hvort þau hafi strítt einhverjum eða sýnt einhverjum yfirgang í gegnum farsímann svöruðu 8,7% því játandi árið 2009. Því virðast færri senda ljót skilaboð eða myndir en áður eða þá að færri viðurkenna slíka hegðun. Þegar þátttakendur voru spurðir að því hvort þeir hafi sjálfir einhvern tíma sett inn skilaboð, texta eða mynd á netið sem var andstyggileg í garð annarrar persónu svöruðu 5,7% spurningunni játandi en 2009 svöruðu 11,6% þessari spurningu játandi. Eftir því sem börnin eru eldri því líklegri eru þau til að hafa sett inn slík skilaboð, texta eða mynd. 10% barna í 10. bekk svöruðu spurningunni játandi en 3% barna í 4. og 5. bekk. Innan við 1% foreldra telur að barn sitt hafi endurtekið lagt annað barn í einelti á netinu, þ.e. strítt eða áreitt það endurtekið, ógnað því eða skilið út undan.
Þrír af hverjum fjórum telur ólöglegt að leggja einhvern í einelti
Í könnuninni var jafnframt leitast við að fá fram upplýsingar um það hvaða hegðun eða athæfi á netinu börn telja ólöglegt. Í ljós kom að 75% svarenda töldu ólöglegt að leggja einhvern í einelti og er það sú hegðun á netinu sem flest börnin töldu ólöglega, en 2009 töldu 50% það vera ólöglegt að hrella aðra á netinu. Stelpur eru líklegri en strákar til að telja einelti ólöglegt og sömuleiðis telja yngri börnin einelti frekar vera ólöglegt en eldri börn. Þannig telja yfir 80% barna í 4.-6. bekk það ólöglegt að leggja einhvern í einelti á meðan sambærilegt hlutfall í 10. bekk er 63%.
Fleiri niðurstöður úr könnuninni verða birtar síðar í vikunni og gerð verður grein fyrir niðurstöðum á málþingi á Degi eineltis 8. nóvember næstkomandi (sjá http://www.gegneinelti.is/).
Fréttatilkynning