Enn rafmagnstruflanir á Norðurlandi vestra

Aðgerðarstjórn almannavarnarnefndar Skagafjarðar vill benda íbúum og gestum svæðisins á að allir vegir á svæðinu eru lokaðir vegna ófærðar og slæms veðurs. Þá eru rafmagnslínur víða signar niður undir jörð vegna ísingar og dreifing raforku um svæðið ótrygg. Björgunarsveitafólk og viðbragðsaðilar hafa verið að störfum og unnið sleitulaust frá því í gærmorgun og hafa þurft að sinna fjölda aðstoðarbeiðna. 

Beinir aðgerðarstjórn því til allra íbúa á svæðinu að enn er í gildi hættuástand almannavarna biður fólk að gæta varúðar og halda sig innandyra meðan ástandið varir og ekki vera á ferð utandyra nema nauðsyn krefji en gleyma þó ekki að huga að náunganum. Jafnframt beinir aðgerðarstjórn því til almennings að fara sparlega með rafmagn.

Rafmagnstruflun er í gangi landskerfinu á Norðurlandi vestra og er verið að vinna í að byggja upp. Tilraun var gerð til að koma rafmagni á Sauðárkrókslínu rétt eftir hádegi en án árangurs. Líklega bilun á línunni. Sauðárkrókur er því enn án rafmagns en varaafl er skammtað.
Notendur á milli Hofsós og Brimnes ættu núna að vera komnir með rafmagn en spenna er lág og því möguleiki að notendur gætu fundið fyrir truflunum.
Rafmagnsbilun er í gangi á Reykjaströnd og Skaga að austan en vegna veðurs er ekki hægt að komast í viðhaldsvinnu.
Rafmagnstruflun er í gangi landskerfinu frá aðveitustöð Hrútafirði og eru því rafmagnslaust hjá notendum í Hrútafirði, Miðfirði, Laugarbakka og Hvammstanga.
Tengivirkið á Hnjúkum er komið aftur í rekstur en rafmagnsbilun er í gangi á Húnavöllum, verið er að leita að bilun. Ef þú hefur einhverjar upplýsingar sem gætu hjálpað við bilanaleit hafðu þá vinsamlega samband við Svæðisvakt RARIK Norðurlandi í síma 528 9690 Kort af svæði sem talið er vera um að ræða má sjá á www.rarik.is/rof.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir