Færum ekki svo auðveldlega úr ESB | Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Hjörtur J. Guðmundsson. AÐSEND MYND
Hjörtur J. Guðmundsson. AÐSEND MYND

Vísað hefur verið til þess af Evrópusambandssinnum að Bretland hafi gengið úr Evrópusambandinu. Hins vegar var það langt því frá auðvelt og jafnvel talið að ekki hefði orðið af því hefðu Bretar verið búnir að fórna brezka pundinu fyrir evruna. Ekki vegna þess að evran væri svo frábær heldur vegna þess að ekki sé einfalt verk að setja á laggirnar nýjan gjaldmiðil og skapa trúverðugleika um hann. Ekki einu sinni fyrir stórt og öflugt hagkerfi eins og Bretland með tugi milljóna íbúa.

Fram kemur enn fremur í drögum að skýrslu sem Gunnar Pálsson, fyrrverandi sendiherra Íslands í Brussel, setti saman á vegum utanríkisráðuneytisins árið 2018 að miðað við reynslu Breta yrði ekki auðvelt fyrir Ísland að ganga úr Evrópusambandinu. „Af útgönguviðræðum Bretlands og ESB má ennfremur draga þá ályktun að ekki yrði áhlaupaverk fyrir fámenna þjóða að endurheimta það fullveldi sem framselt yrði með aðild að sambandinu, skyldi henni snúast hugur síðar meir.“

Viðbrögð Evrópusambandsins við ósk Bretlands um að segja skilið við sambandið virtust öðrum þræði miða að því að koma í veg fyrir að fleiri ríki fylgdu fordæmi Breta að því er segir í drögunum. Með öðrum orðum gera þá að víti til varnaðar. Komið hefur beinlínis fram í gögnum sambandsins að það væri á ábyrgð þess að sjá til þess að sú yrði ekki raunin. Með inngöngu í Evrópusambandið væri þannig verið að taka ákvörðun sem ekki yrði svo auðveldlega tekin til baka. Ef yfir höfuð.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur, alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum) og stúdent frá FNV.

Fleiri fréttir