Fimm óhöpp á síðustu þremur tímum
Bifreið fór út af vegi og valt í Víðidal nú skömmu eftir hádegi. Samkvæmt heimildum Mbl.is voru þrír farþegar bílsins voru fluttir með sjúkrabifreiðum á sjúkrahúsið á Akureyri, ekki er vitað nánar um meiðsl þeirra að sögn lögreglunnar á Blönduósi. Mikil hálka er á Holtavörðuheiði og hafa margir bílar lent utan vega.
Að sögn Höskuldar Erlingssonar, varðstjóra lögreglunnar á Blönduósi, hefur töluvert verið um umferðaróhöpp í nágrenni Blönduósar það sem af er degi en fimm umferðarslys hafi átt sér stað á síðustu þremur tímum.
„Hér hefur verið dálítið annríki. Það er mikil umferð og í þokkabót er mjög hált á köflum. Í Víðihlíð varð mjög harður árekstur þar sem tveir bílar rákust á og skemmdust mjög mikið. Farþegarnir sluppu þó ómeiddir,“ segir Höskuldur í samtali við Mbl.is.
Þá fór bifreið út af vegi rétt sunnan við Víðihlíð og skemmdist hann einnig töluvert en engin meiðsl urðu á fólki.
„Rétt þar við, þá fer bíll út af og veltur. Þar slasast þrír og þeir eru nú á leið til Akureyrar. Núna erum við svo að fara á vettvang bílveltu uppi á Holtavörðuheiði. Það held ég þó að sé meiðslalaust. Svo fengum við að endingu árekstur hérna á Blönduósi líka. Þannig við höfum fengið fimm óhöpp á síðustu þremur tímum. Þetta eru því dálitlar annir.
Auk þess höfum við fengið fregnir af fleiri bílum sem lent hafa utan vega á Holtavörðuheiði. Þar er mikil hálka og svo virðist sem fólk sé ekki að keyra alveg eins og aðstæður leyfa,“ segir Höskuldur.