Fjárheimildir standa ekki undir áætluðum kostnaði

Frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Ljósm./KSE
Frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Ljósm./KSE

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2016 kemur fram að áætlaðar fjárveitingar til Fjölbrautaskólaskóla Norðurlands vestra næsta árið séu 496,5 m.kr. og til Hólaskóla – Háskólans á Hólum 329,1 m.kr. Árið 2015 fékk Hólaskóli 353,3 m.kr. fjárveitingu en skólinn hlaut 40 m.kr. aukafjárveitingu fyrir vegna framkvæmda.

Fjárveiting til Fjölbrautaskólans var 442 m.kr. árið 2014, árið 2015 voru þær 452,4 m.kr. en í ár eru þær 496,5 m.kr. Í fyrstu sýn virðist um talsverða hækkun að ræða en skólinn fær greitt fyrir hvert nemendaígildi, sem er breytilegt frá ári til árs, þrátt fyrir að nemendafjöldi skólans hafi verið stöðugur. Árið 2014 voru áætlaðir ársnemendur 335, árið 2015 voru þeir 302 en árið 2016 eru þeir 311, sem er talsvert undir þeim nemendafjölda sem skólinn hefur verið að skila. Þetta þýðir að áætluð hækkun fjárveitinga stendur tæpast undir þeim kostnaði sem fyrirsjáanlegur er m.a. vegna samningsbundinna launahækkana.​​

Þá segir Erla Björk Örnólfsdóttir rektor Hólaskóla fjárheimild skólans ekki standa undir áætluðum launakostnaði starfsmanna háskólans hvað þá öðrum kostnaði.

„Fjárlagafrumvarp ársins 2016 með öllum þeim breytingum sem þar eru til lagðar skapa Háskólanum á Hólum þrengri ramma til starfa á árinu 2016 en í ár.  Þess má einnig geta að fjárheimild Háskólans á Hólum stendur ekki undir áætluðum launakostnaði starfsmanna háskólans, hvað þá öðrum kostnaði,“ segir Erla Björk í samtali við Feyki.

Hólaskóli fékk 40 m.kr. aukafjárveitingu fyrir þetta ár vegna framkvæmda við endurnýjun og viðhald á aðstöðu vegna kennslu í hestafræði. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2016 er lagt til að upphæðin til skólans lækki sem því nemur, að frátöldum launa- og verðlagshækkunum sem nema 16,3 m.kr. því til viðbótar.

Í frumvarpinu segir að í öðru lagi sé lagt til að framlag til skólans hækki um 2,1 m.kr. vegna hækkunar á verði reikniflokka náms og að breytingarnar séu hluti af áformum um að styrkja rekstrargrunn skólans með því að hækka framlag með hverjum nemanda. Þá segir að í þriðja lagi sé áætlað að bæði ríkistekjur af skrásetningargjaldi og útgjöld sem þeim er ætlað að standa undir lækki um 2,7 m.kr. vegna þeirra nemenda sem eru umfram reiknaða ársnemendur sem lagðir eru til grundvallar reiknuðu kennsluframlagi. Áætlað er að þeir séu 32 talsins.

Fleiri fréttir