Freyja Lubina keppir í EuroSkills 2025

Freyja Lubina við æfingar í verknámi FNV á dögunum. MYNDIR: GG
Freyja Lubina við æfingar í verknámi FNV á dögunum. MYNDIR: GG

Freyja Lubina Friðriksdóttir keppir í húsasmíði fyrir Íslands hönd í EuroSkills 2025 – European Championship of Young Professionals sem fram fer í Herning í Danmörku 9.-13. september 2025. Freyja útskrifaðist sem húsasmiður frá FNV og henni til halds og trausts verður Hrannar Freyr Gíslason, kennari í húsasmíði við FNV.

Þetta er stærsta keppni Evrópu á sviði starfsnáms og iðngreina þar sem saman koma allt að 600 keppendur frá um 30 Evrópulöndum til að spreyta sig á verklegum verkefnum. Keppt er í 38 ólíkum greinum, allt frá trésmíði, rafvirkjun, málun og hönnun yfir í matargerð, bakstur, þjónustugreinar og hársnyrtingu.

Frá Íslandi taka þátt 13 ungmenni sem keppa í jafn mörgum greinum, þar á meðal í trésmíði, rafvirkjun, hársnyrtingu, málun, bakstri og málmsuðu.

Freyja hefur verið að undirbúa sig fyrir keppnina frá því í febrúar og hefur undanfarna daga verið að æfa sig í tímatöku á verkefninu sem hún fær í keppninni. Einnig hefur hún sótt fyrirlestra í andlegri uppbyggingu til að styrkja sig fyrir þá miklu áskorun sem framundan er. 

Þá má geta þess að Freyja er frá Vestur-Húnavatnssýslu en starfar nú hjá Trésmiðjunni Borg á Sauðárkróki.

Hægt er að horfa á viðtal við Freyju með því að smella hér >

Og hér segir Freyja frá verkefninu >

/Frétt og myndbönd fra FNV

Fleiri fréttir