Fyrsta REKO afhending á Norðurlandi þann 20. desember

Á Facebook-síðuna REKO Norðurland setja framleiðendur upplýsingar um sínar afurðir og geta áhugasamir kaupendur nálgast vörur og keypt beint af þeim. Einungis er um afhendingu að ræða þessa daga sem tilgreindir eru og verða allar vörur að vera pantaðar og greiddar fyrir afhendinguna.
Á Facebook-síðuna REKO Norðurland setja framleiðendur upplýsingar um sínar afurðir og geta áhugasamir kaupendur nálgast vörur og keypt beint af þeim. Einungis er um afhendingu að ræða þessa daga sem tilgreindir eru og verða allar vörur að vera pantaðar og greiddar fyrir afhendinguna.

Það eru ýmsar leiðir færar fyrir framleiðendur að koma vörum sínum á framfæri þó svo að um lítið magn sé að ræða. Bændamarkaðir hafa verið vinsælir og á Facebook má finna hópa undir merkinu REKO þar sem viðskipti geta farið fram. Fyrstu afhendingarnar á Norðurlandi verða þann 20. og 21. desember á Blönduósi 20. desember við Húnabúð kl: 12-13, Sauðárkróki 20. desember við verknámshús FNV kl: 16-17 og á Akureyri 21. desember hjá Jötunvélum kl: 12-13.

Á Facebook-síðuna REKO Norðurland setja framleiðendur upplýsingar um sínar afurðir og geta áhugasamir kaupendur nálgast vörur og keypt beint af þeim. Einungis er um afhendingu að ræða þessa daga sem tilgreindir eru og verða allar vörur að vera pantaðar og greiddar fyrir afhendinguna. Til þess að komast að því fyrir hvað REKO stendur hafði Feykir upp á henni Sigrúnu Indriðadóttur á Stórhóli í Lýtingsstaðahreppi og sendi henni nokkrar spurningar.

„REKO á uppruna sinn á finnskri grundu, en REKO er tekið úr sænsku og er stytting á „vistvænir og heiðarlegir viðskiptahættir“  Markmiðið er að færa neytendur og framleiðendur nær hvor öðrum, efla nærsamfélagið, sækja ekki vatnið yfir lækinn, ásamt því að styðja við smáframleiðendur. Vita hvað þú ert að borða og halda matarmenningu, matarhefðum og matarhandverki á lofti. Og ekki skemmir að kolefnissporunum fækkar til muna.

 Sjö REKO hópar hafa verið stofnaðir á Snjáldurskinnunni (Facebook); REKO Norðurland, sunnanverðir Vestfirðir, Vesturland, Reykjavík, Suðurland, Hornafjörður og Austurland.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lét sig ekki vanta á fyrstu REKO afhendinguna í Reykjavík, á planinu hjá Lindum í Kópavogi. AÐSEND MYND.

Þetta virkar þannig að fyrir hverja afhendingu er stofnaður viðburður inn í viðkomandi hópi.  Inn í þennan viðburð setja framleiðendurnir stöðufærslur þar sem fram koma upplýsingar um þær vörur sem þeir bjóða hverju sinni, ásamt verði og viðskiptaupplýsingum.  Neytendur panta svo vörur hjá framleiðendunum með því að skrifa athugasemdir við færslur framleiðenda eða senda þeim einkaskilaboð og greiða fyrir þær rafrænt. Framleiðendur mæta svo með vörurnar á fyrirfram ákveðinn stað á ákveðnum tíma og neytandinn sækir.“

Hvernig líkar bændum annars vegar við þetta fyrirkomulag og neytendum hins vegar?
„REKO er enn mjög nýtt, búnar að vera sjö afhendingar á landinu og allir enn að læra svolítið inn á þetta. En bændurnir eru mjög ánægðir með þetta, engir milliliðir, þú mætir bara með vöruna sem búið er að selja og heldur svo þína leið eftir afhendinguna, þarft ekkert að burðast með óselda vöru eða flýta þér heim áður en allt þiðnar. Neytendur eru einnig ánægðir með að hitta framleiðandann, eiga þetta samtal eða handaband, geta á einu bretti sótt fullt af vörum, fjölbreytt og ekkert endilega í miklu magni, losnað við flutningskostnað, og hlúð að svo mörgu mikilvægu í leiðinni.

Er allt uppi á borðum, heilbrigðisvottun og skattaskil?
„Það er allt uppi á borðum. Þeir sem selja í gegnum REKO verða að vera með tilskilin leyfi og standa skil á sínu. Þegar neytandi hefur pantað vöru stofnar seljandinn kröfu í heimabanka, sem kaupandinn greiðir svo áður en að afhendingu kemur. Með vörunum fylgja svo reikningur eða sendist rafrænt. Á afhendingastað er því aðeins um að ræða afhendingu vöru en ekki sölu.“

Það er ekki alltaf sól og blíða á afhendingarstað. Aðsend mynd.

Hvenær má reikna með næstu afhendingum og hvar?
„Fyrstu afhendingarnar á Norðurlandi verða þann 20. og 21. desember
Blönduósi 20. desember við Húnabúð kl: 12-13
Sauðárkróki 20. desember við verknámshús FNV kl: 16-17
Akureyri 21. desember hjá Jötunvélum kl: 12-13

Hvernig pantar maður vörur gegnum REKO?
Þetta er á Snjáldurskinnunni (Facebook), þú slærð inn REKO og getur þá valið einhvern landshluta (veljum) Norðurland. Ofarlega til vinstri (veljum) Viðburðir/Events á þeirri síðu er boðið upp á þrjá viðburði (veljum) REKO afhending á Sauðárkróki, 20. des kl. 16-17 / vöruframboð (veljum)

Umræða/Discussion hérna bjóða svo framleiðendur vörur sínar. Neytandinn pantar með því að gera athugasemd við færslu framleiðanda eða eins og framleiðandinn biður um, fær kröfu í heimabankann sinn eða millifærir inn á reikning framleiðandans og sækir svo vörurnar sínar á planið við Verkmenntahús Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki kl. 16-17.

Þetta sama gildir um hina viðburðina REKO afhending á Blönduósi, 20. des kl. 12-13 / vöruframboð og REKO afhending á Akureyri, 21. des kl. 12-13 / vöruframboð.“

Eitthvað sem þú vilt koma á framfæri?
„Ég býð öllum að gerast meðlimir í REKO hringjunum. Auðvitað er púlsinn okkar á REKO Norðurland núna. Við erum öll neytendur, og með ykkar hjálp mun þetta framtak eflast og lifa. Verið dugleg að deila, segja vinunum frá og prófa. Svo óska ég ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar og hlakka til að hitta ykkur þann 20. og 21 . des. næstkomandi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir