Fyrsta strætóferðin norður

Jómfrúarferð Strætó milli Reykjavíkur og Akureyrar var farin í gærmorgun en nýtt fyrirkomulag um fólksflutninga tók gildi þann 1. september þar sem sérleyfisakstur eins og verið hefur til fjölda ára, heyrir sögunni til. Breytingarnar hafa m.a. í för með sér styttri stopp og styttri aksturstíma, auk nýrra leiða á völdum köflum.

Þar má helst til nefna að  áætlunarakstur verður til Stykkishólms, Búðardals, Hólmavíkur og Reykhóla en einnig verður boðið upp á ferðir til Grundarfjarðar, Ólafsvíkur, Hellissands, Rifs, Reykholts,  Hvammstanga og Skagastrandar en þær ferðir verður að panta sérstaklega a.m.k. tveimur tímum fyrir brottför.

Þá verður sú meginbreyting gerð á akstursleið frá fyrri tíð að ekið er yfir Þverárfjall og þar með er Sauðárkrókur orðinn einn af viðkomustöðum fólksflutningavagna milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Bjarni Jónsson, Sveinn Kristinsson, Gísli Friðjónsson og Páll Brynjarsson við undirskriftir.

Meðal farþega strætó í þessari ferð voru Páll Brynjarsson sveitarstjóri í Borgarbyggð, Sveinn Kristinsson formaður stjórnar SSV og Gísli Friðjónsson forstjóri Hópbíla sem sjá um aksturinn, en Bjarni Jónsson formaður SSNV tók á móti þeim í Staðarskála þar sem samningar um aksturinn voru undirritaðir. Var haft á orði að tímamót væru í almenningssamgöngum á Norður- og Vesturlandi enda um aukna þjónustu að ræða fyrir íbúa svæðanna.

Fleiri fréttir