Gjafir til samfélagsins

Auglýsing sem birtist í Sjónhorni vikunnar.
Auglýsing sem birtist í Sjónhorni vikunnar.

Það er hægt að segja að Kvenfélög í Skagafirði séu einn af styrkleikum Skagafjarðar, með vinnu sinni og styrkjum til hinna ýmissa verkefna í nærumhverfinu. Í Skagafirði eru tíu kvenfélög og elst þeirra er kvenfélagið í Hegranesi. Hvað gera kvenfélög og til hvers eru þau? Kvenfélögin eru góður vettvangur fyrir einstaklinga til þess að hittast, kynnast, spjalla, læra eitthvað nýtt, hafa gaman og láta gott af sér leiða. Þannig að ef þig langar til þess að kynnast nýju fólki og láta gott af þér leiða þá er kvenfélag góður vettvangur til þess.

Helstu fjáraflanir kvenfélaganna hafa verið sala á kaffi vegna erfidrykkja og basar, kökur og hannyrðir. Fjáraflanir eru þó orðnar fjölbreyttar. Félögin bjóða upp á kótilettukvöld, kaffihlaðborð, föndra leiðiskransa, aðventukvöld, flóamarkað, kökubasar, jafnvel aðstoð við veislur og ættarmót, já bara það sem félögum dettur í hug að gera. Sá ágóði sem kvenfélögin ná að safna hefur runnið til góðgerðarmála í nærumhverfinu eins og kaupa á tækjum til Sjúkrahúss, Iðju, fjölskylduhjálpar, Rauða krossins, björgunarsveita og jafnvel einstaklinga sem eru að kljást við erfið verkefni. Það væri örugglega margt öðruvísi ef kvenfélögin hefðu ekki verið til þess að safna fyrir hin margvíslegu málefni.

Félagsmenn gera samt margt sér til gamans líka eins og hittast í prjónahitting, föndra jólakransa, halda ensk teboð, jólaböll, fara út að borða og í ferðir til þess að skoða t.d. handverk og fara á nytjamarkaði þar sem alltaf má finna eitthvað sem maður vissi ekki að mann bráð vantaði.

Samband Skagfirskra (SSK) kvenna var stofnað 1943 og var hugsað sem vettvangur til þess að konur úr hinum dreifðu byggðum Skagafjarðar hefðu vettvang til þess að hittast þ.e. halda utan um kvenfélögin. Í dag heldur SSK enn utan um félögin, boðar formenn félaga á fund og fær að vita hvað félögin eru að gera og formenn félaganna deila því sem er á döfinni hjá þeirra félagi. Okkur finnst samt ekki vera neitt sérstaklega dreifbýlt í Skagafirði í dag þó það sé svolítill spotti utan úr Fljótum og innst inn í Lýtingsstaðahrepp. Samgöngur eru hins vegar orðnar allt aðrar en þær voru 1943.

Á hverju ári, annan sunnudag í mars, er vinnuvaka þar sem öll kvenfélögin í Skagafirði vinna saman að því að bjóða íbúum að sjá handverkssýningu sem er ákveðið þema hvert ár, kaupa handverk og kökur á basar, hitta annað fólk og kaupa sér kaffi og með því á eftir. Allur ágóði af þessu verkefni rennur í góðgerðarmál sem er ákveðið á aðalfundi SSK.

Nú er komið að vinnuvöku hjá kvenfélögunum í Skagafirði í Varmahlíðarskóla. Þema þennan dag verður púðar og munu verða sýndar hinar ýmsu gerðir af púðum. Basarinn verður á sínum stað þar sem hægt verður að kaupa handverk og kökur auk þess sem hægt verður að kaupa kaffihlaðborð á eftir. Að þessu sinni rennur allur ágóði af vinnuvöku til Utanfarasjóðs sjúkra, sem er sjóður sem einstaklingar sem þurfa að leita lækninga erlendis geta sótt í.

Vil ég því bjóða alla velkomna næstkomandi sunnudag, 10. mars kl. 15, í Varmahlíðarskóla, og leggja góðu málefni lið.

Hlakka til þess að sjá sem flesta.
Kristín Snorra
Formaður SSK í Skagafirði

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir