Hátæknisetur FNV á Sauðárkróki vinnur samevrópsk verðlaun
Á uppskeruhátíð Evrópskra samstarfsáætlana fékk Málmtæknibraut FNV gæðaviðurkenningu, Fyrirmyndarverkefni Comenius. Verkefnið Excited gekk út á sköpun og nýjungar í tækni, frumkvöðlafræði og hönnun og snerist um hönnun í málmtæknibrautum á fjölnota forritanlegri framleiðslulínu til að setja saman lyklakippur. Markmiðið var að auglýsa skóla á ferð „mobile school“ sem fer um fátækrahverfi stórborga og í þróunarlöndum.
Á heimasíðu FNV segir að framleiðslueiningarnar geti staðið einar þ.e. unnið sjálfstætt en samt í samhengi hver við aðra. Hver skóli í hverju landi var ábyrgur fyrir sínum hluta sem samanstendur af vélbúnaði, stýrieiningum og móðurtölvu. Til að verkefnið gengi upp þurftu nemendur og kennarar að hafa samskipti sem einkenndust af mikilli nákvæmni, samvinnu, hugmyndavinnu og lausnum og voru samstarfslönd í þessu verkefni Belgía, Danmörk, Noregur, Tékkland og Þýskaland.
Það var Jan Truszczynski, Director General, DG Education and Culture, European Commission sem afhenti viðurkenningar skjal og verðlaunagripin Lífs eggið eftir listakonuna Koggu
Í upphafi hátíðarinnar sagði Ágúst Hjörtur Ingþórsson, forstöðumaður Landskrifstofu menntaáætlunar ESB frá þessu 20 ára samstarfi við ESB og upplýsti að frá aldamótum hefur Ísland fengið 145 milljónir € í styrki. Einnig var kynntur nýr vefur evropusamvinna.is þar sem hægt er að sjá hvernig styrkir hafa skipts milli landshluta og aðila. Hátíðin fór fram í Hafnarhúsinu í Reykjavík þar sem gestir gátu kynnt sér verkefnin og rætt við þátttakendur.
Sjá má myndir frá uppskeruhátíðinni HÉR