Hátíðarstemning í leikskólanum Ásgarði

Hjá leikskólanum Ásgarði í Húnaþingi vestra ríkir hátíð þessa dagana en leikskólinn fékk á dögunum úthlutað kr 1.400.000 úr Sprotasjóði vegna þróunarverkefnis sem ber heitið Leikur er barna yndi. Þróunarverkefnið flokkast undir nýsköpun í námsumhverfi.

Megin markmið verkefnissins er að þróa enn betur innra starf og leikumhverfi nemenda með það fyrir augum að auka gæði frjálsa leiksins ásamt því að finna leiðir til að nýta betur leikrými og leikefnivið skólans. Einnig er markmiðið að efla starfsfólk og dýpka þekkingu þeirra á flæðinu og hugmyndafræði Mihaly Csikszentmihalyi sem fjallar meðal annars um jákvæða sálfræði.

Auk þess að fá þennan myndarlega styrk þá kom í upphafi vikunnar starfsfólk Landverndar til að taka út skólann vegna Grænfánaverkefnisins og niðurstaðan varð sú að Grænfánanum verður flaggað á Sumarhátíð leikskólans þann 23. júní en þá mun fulltrúi frá Landvernd mæta til að afhenda fánann formlega. Verkefnastjóri Grænfánaverkefnisins er Sigurbjörg Friðriksdóttir.

Fleiri fréttir