Hefurðu smakkað kanínukjöt?
Gæludyr, gulrætur, Kalli kanína, fjölgun – þetta er bara sýnishorn af þeim svörum sem komu við spurningunni „Hvað er það fyrsta sem þér dettur í hug þegar kanínur eru nefndar?“ Þessi spurning og fleiri voru lagðar í formi könnunar fyrir viðskiptavini Kringlunnar þann 5. mars s.l. en markmið með könnunni var að fá innsýn í viðhorf almennings gagnvart kanínukjöti.
Uppi eru hugmyndir um stofnun fyrirtækis í Húnaþingi vestra með það að markmiði að rækta holdakanínur og selja afurðir þeirra, s.s. kanínukjöt, til veitingahúsa og neytenda. Stefnt er að uppbyggingu ræktunarstofns sem samanstendur af 250 læðum viðurkenndrar ræktunartegundar, en fyrstu 23 dýrin munu væntanlega koma erlendis frá. Að baki viðskiptahugmyndinni stendur Birgit Kositzke, fædd í Þýskalandi en búsett á Hvammstanga.
Kanínukjöt er ljóst kjöt, meyrt og hollt, enda fitusnautt, og því auðmeltanlegt. Það er mjög bragðgott, og hægt er að matreiða það á margvíslegan hátt. Sérstaklega fyrir þá sem hugsa um heilsuna eða kjósa létt fæði er kanínukjöt góður valkostur á móti svína-, nauta- og lambakjöti.
Niðurstöður ofannefndrar könnunar munu hafa áhrif á stærð fyrirtækisins. Til stendur að safna fleiri svörum, m.a. í gegnum heimasíðu, sem þegar er í smiðum.
Öllum þeim fjölmörgu sem tóku sér tíma til að svara spurningalistanum í Kringlunni, vill Birgit þakka kærlega fyrir.