Heimsmeistarakeppnin gefur nokkrar krónur í kassann

Áfram Ísland.  MYND AF NETINU
Áfram Ísland. MYND AF NETINU

Það vita flestir að það eru miklir peningar í heimsfótboltanum þó svo að pyngjurnar séu kannski ekki þungar hjá fótboltaklúbbunum hér á Fróni. Íslensku landsliðin í knattspyrnu hafa náð mögnuðum árangri síðustu árin og þátttaka karlalandsliðsin á HM í knattspyrnu í Rússlandi í sumar skilar talsverðum tekjum til KSÍ sem hyggst skipta 200 milljónum króna á milli aðildarfélaga sinna.

Í frétt á Vísir.is segir: „Fjármunum sem veitt er til aðildarfélaga skal eingöngu varið til knattspyrnutengdra verkefna félaganna en upphæðin var ákveðin á síðasta  ársþingi KSÍ sem fram fór 10. febrúar síðastliðinn. Stjórn KSÍ hefur nú ákveðið hvernig greiðslurnar skiptast á milli aðildarfélaga og segir frá skiptingunni á heimasíðu sinni.

Framlag til aðildarfélaga byggist fyrst og fremst á stöðu meistaraflokks karla og kvenna í deildum síðastliðin tvö ár eða árin 2017 og 2018. Við úthlutun eftir EM 2016 var miðað við árin 2014 til 2016. Félögunum er skipt upp í tvo flokka. Annars vegar félög í deildarkeppni, sem eru með unglingastarf og hins vegar félög sem ekki standa fyrir barna- og unglingastarfi.“

Hér á Norðurlandi vestra fær Tindastóll úthlutað 3.682.990 krónum en Kormákur/Hvöt fær kr. 818.442 og sem fyrr segir skal fjármununum varið til knattspyrnutengdra verkefna. Félög án barna- og unglingastarfs, 30 félög, fá samtals 1,7 milljónir króna, eða 56.000.- hvert félag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir