Helga Margrét Þorsteinsdóttir íþróttamaður USVH 2010
Helga Margrét Þorsteinsdóttir var í gær kjörinn íþróttamaður USVH fyrir árið 2010.Helga Margrét er frjálsíþróttakona frá Reykjum í Hrútafirði en hún hlaut 50 stig í kjörinu. Í öðru sæti varð Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir körfuknattleikskona og systir Helgu Margrétar með 24 stig og í þriðja sæti varð Fríða Mary Halldórsdóttir hestaíþróttakona með 7 stig. Aðrir sem hlutu tilnefningar í kjöri íþróttamanns USVH voru Tryggvi Björnsson og Ísólfur Líndal Þórisson hestaíþróttamenn og Ólafur Ingi Skúlason frjálsíþróttamaður.
Helstu afrek Helgu Margrétar á árinu 2010 eru sem hér segir:
- Í júlí náði Helga Margrét þeim frábæra árangri að vinna brons í sjöþraut á HM 19 ára og yngri í Kanada. Hún hlaut alls 5.706 stig, en besti árangur hennar í þrautinni er 5.878 stig.
- Í febrúar keppti Helga í Bikarkeppni FRÍ innanhúss. Þar hljóp hún 60m grindarhlaup á tímanum 0,8,79. Einnig stökk hún 1,70m í hástökki og sigraði báðar þessar greinar.
- Í lok júlí keppti Helga í sjöþraut á EM í Barcelona á Spáni. Hún náði sér ekki á strik þar og hætti keppni eftir kúluvarpið.
- Helga Margrét er í landsliðshóp Íslands í frjálsum íþróttum 2010-2011.
- Helga Margrét er ein af 10 efstu sem tilnefndir eru til Íþróttamanns ársins í kjöri íþróttafréttamanna sem verður líst í upphafi næsta árs.
- Helga Margrét er þrátt fyrir ungan aldur orðin ein besta sjöþrautarkona heims. Sænski þjálfarinn Agne Bergvall, sem meðal annars þjálfar fyrrverandi Ólympíumeistarann í sjöþraut, Carolinu Klüft, er nú orðin þjálfari Helgu og fer hún til Svíþjóðar á æfingar öðru hvoru.
Íþróttamenn USVH geta orðið þeir íþróttamenn 16 ára og eldri sem lögheimili eiga í Húnaþingi vestra eða keppa undir merkjum félaga innan USVH. Það eru stjórnarmenn í aðildarfélögum USVH og stjórn USVH sem kjósa íþróttamanninn. Þetta er í fjórða skiptið í röð sem Helga Margrét er kjörin íþróttamaður ársins hjá USVH og hlaut hún farandbikar til varðveislu auk eignarbikars.