Hræinu sleppt utan við sjávarfallastrauma
Feykir sagði frá því fyrir nokkru að 15 metra langan búrhval rak á land við Bessastaði í Hrútafirði. Í forsíðufrétt þann 23. mars kom fram í viðtali við Guðnýju Helgu Björnsdóttur, ábúanda, að gott yrði að losna við hvalinn úr fjörunni áður en megna ólykt legði frá honum. Svo virðist sem Guðnýju Helgu hafi orðið að ósk sinni því nokkrum dögum síðar var varðskipið Freyja mætt í Hrútafjörðinn og tókst að draga dýrið úr fjörunni og sleppa því síðan utan sjávarfallastrauma, 30 sjómílur norður af Horni.
Í frétt á vef Landhelgisgæslunnar segir: „Áhöfnin sendi tvo léttbáta frá skipinu til að kanna aðstæður umhverfis hræið en um 15 metra langan búrhval var að ræða. Hvalurinn var nánast á þurru og á meðan beðið var flóðs voru taugar settar í sporð dýrsins. Nýta varð léttbáta skipsins til að toga dýrið út þar sem ekki reyndist unnt að koma Freyju nálægt landi sökum grynninga. Síðdegis á laugardag losnaði dýrið úr fjörunni og var það dregið að varðskipinu Freyju og tengt dráttartaug.“
Landhelgisgæslumenn voru ánægðir með hvernig til tókst og bændurnir á Bessastöðum vafalaust ánægðir að vera lausir við hvalrekann og öllu því sem honum fylgir.